Forvarnarnámskeiðið Klókir litlir krakkar er námskeið fyrir foreldra 3 - 6 ára barna sem eru í áhættuhópi fyrir að þróa með sér kvíðaraskanir.
Námskeiðið miðar að því að fræða foreldra um eðli kvíða og kenna þeim leiðir til að takast á við kvíðahegðun barna sinna og auka sjálfstraust þeirra.
Vonast er til að með slíku forvarnarnámskeiði verði hægt að minnka kvíðahegðun barna og í sumum tilfellum koma í veg fyrir að börn þrói með sér kvíðaröskun seinna meir.
Fyrirkomulag
Hvert námskeið er 12 klukkustundir og skiptist í 6 skipti, kl. 17:15-19:15. Fyrstu 4 skiptin eru vikulega, síðan verður viku frí milli 4. og 5. tíma og 2ja vikna frí á milli 5. og 6. tíma. Rík áhersla er lögð á umræður og virka þátttöku foreldra til að tryggja að efnið nýtist hverjum og einum sem best. Milli tíma vinna foreldrar heimaverkefni sem snúa að því að vinna með kvíðaeinkenni barna sinna.
Mikilvægt er að foreldrar geti mætt í alla tímana og mælt er með því að báðir foreldrar sæki námskeiðið.