Vöxtur barna
Að fylgjast með vexti barna gefur mikilvægar upplýsingar um heilsufar og næringarástand. Vaxtalínurit er einn besti mælikvarði sem völ er á til að fylgjast með almennu heilsufari og heilbrigði barna. Mikilvægt er að hæðar- og þyngdarmæla með reglulegu millibili til að geta metið frávik á vaxtarlínuriti.
Þar sem vöxtur og holdafar er oft viðkvæmt efni fyrir börn og unglinga er mikilvægt að eftirfylgd sé í samráði við foreldra og framkvæmd á nærgætin hátt.
Vöxtur barna er mældur í 1., 4., 7. og 9. bekk.
Sjón
Sjóngæsla barna er mikilvægur þáttur í heilsuvernd. Sjóngallar eru nokkuð algengir meðal barna og unglinga og aukast með aldrinum. Ef ekki er gripið til viðeigandi úrræða hefur það áhrif á líðan og námshæfni nemandans.
Með sjónprófi í skóla er sjónskerpa (nærsýni) mæld á hvoru auga fyrir sig með því að ákvarða hversu smáa stafi barnið getur lesið úr ákveðinni fjarlægð. Sjónprófað er með HVOT töflu sem samsett er úr 4 bókstöfum, H-V-O-T. Þekki börn ekki stafina er til spjald með sömu bókstöfum sem barnið bendir á.
Sjónpróf fara fram í 1., 4., 7. og 9. bekk.
Viðtöl um heilsu og líðan
Þegar skimanir fara fram í 1., 4., 7. og 9. bekk ræðir hjúkrunarfræðingurinn við nemendur um heilsu og líðan. Markmið þessara viðtala er að styrkja vitund nemenda um eigin lífsstíl og líðan. Eins að geta gripið til úrræða ef vart verður við vanlíðan eða áhyggjur. Grunnupplýsingar úr viðtali um heilsu og líðan eru skráðar í rafræna sjúkraskrá heilsugæslunnar