Lyfjaávísanir
Viðtal við lækni er alltaf fyrsta skrefið í ávísun lyfja.
Í viðtali fer fram greining á vanda og, í samráði við skjólstæðing, tekin ákvörðun um lyfjameðferð, með hugsanlegar aukaverkanir og milliverkanir í huga.
Í viðtalinu er hægt að fá fjölnota lyfseðil eða ganga frá lyfjaskömmtun ef um langtímalyfjanotkun er að ræða.
Lyfjaendurnýjun
Ef nota þarf aðrar leiðir er þægilegast að óska eftir lyfjaendurnýjun í gegnum Heilsuveru. Þá þarft þú að hafa rafræn skilríki.
Á mínum síðum Heilsuveru er yfirlit yfir þau lyf sem þú og þín börn hafa fengið ávísað síðustu þrjú ár og hvort búið sé að nota ávísunina.
Einnig er hægt endurnýja í lyfjasíma heilsugæslustöðvanna.
Fyrirkomulag lyfjasíma er kynnt á síðu heilsugæslustöðvarinnar þinnar. Annað hvort er ákveðið númer sem er opið í nokkra tíma á dag eða símsvari sem þú hringir í og skilur eftir skilaboð.
Hvaða lyf er hægt er að endurnýja
Þú getur óskað eftir að endurnýja lyf sem þú tekur að staðaldri og þinn heimilislæknir eða annar læknir á stöðinni hefur ávísað.
Sýklalyf, sterk verkjalyf, róandi lyf eða svefnlyf eru bara endurnýjuð í viðtali en lyfjaskömmtun getur verið góður kostur fyrir þessi lyf.
Fjölnota lyfseðlar
Til að spara tíma og fyrirhöfn er lögð áhersla á notkun fjölnota lyfseðla fyrir lyf sem notuð eru að staðaldri. Slíkir lyfseðlar geta dugað í allt að eitt ár.
Til að fá fjölnota lyfseðil þarf að koma í viðtal til læknis.