Geðheilsuteymi HH vestur opnað formlega

Mynd af frétt Geðheilsuteymi HH vestur opnað formlega
22.11.2018

Þriðjudaginn 20. nóvember var Geðheilsuteymi HH vestur opnað formlega, en teymið hóf störf í september.

Svanhvít Jakobsdóttir forstjóri HH og Hrönn Harðardóttir teymisstjóri Geðheilsuteymis HH vestur fluttu ávörp um forsöguna og starfsemina. Fjölmargir gestir voru viðstaddir, þar á meðal heilbrigðisráðherra og helstu samstarfsaðilar teymisins.

Á undanförnum árum hefur verið lögð áhersla á að efla geð- og sálfélagslega þjónustu innan heilsugæslunnar og er uppbygging geðheilsuteyma hluti þeirrar vegferðar. Í framhaldi af ályktun Alþingis árið 2016 um stefnu og aðgerðaáætlun í geðheilbrigðismálum til fjögurra ára, var af hálfu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar settur á laggirnar þverfaglegur samráðshópur. Hópurinn fékk það hlutverk að skilgreina hvernig geðheilsuteymi skuli starfa og hvaða þættir þurfi að vera til staðar í þjónustunni. Skýrsla starfshópsins var afar gagnleg og hefur verið leiðarljós í uppbyggingu geðheilsuteyma á höfuðborgarsvæðinu. Að skýrslunni stóðu fulltrúar frá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar, Geðsviði LSH, Embætti landlæknis, Geðheilsustöð Breiðholts (sem nú er Geðheilsuteymi HH austur) og frá HH. 

Í dag eru tvö geðheilsuteymi starfandi á höfuðborgarsvæðinu. Vonir standa til að þriðja teyminu, sem þjóna mun íbúum í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði, verði komið á laggirnar á næsta ári.  Geðheilsuteymi HH vestur mun þjónusta íbúa á Seltjarnarnesi og íbúa Reykjavíkur að Elliðaám í austri. Á þessu svæði eru starfandi sex heilsugæslustöðvar, fimm þeirra heyra undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og ein er einkarekin. Samstarfsaðilar Geðheilsuteymis HH vestur eru fjölmargir auk heilsugæslustöðvanna á svæðinu.

Teymið er ekki fullmannað en núna eru starfsmennirnir sex talsins (4,5 stöðugildi ) hjúkrunarfræðingar, geðlæknir, sálfræðingur og þjónustufulltrúi.
Þjónustan er fyrir einstaklinga 18 ára og eldri sem greindir eru með geðsjúkdóma og þurfa á þverfaglegri aðstoð ásamt þéttri eftirfylgd að halda. 
Tekið er við umsóknum frá starfsmönnum heilbrigðis- og velferðarþjónustu og mikil eftirspurn er eftir þjónustunni.

Frá því opnað var fyrir tilvísanir 17. september, hafa teyminu borist 57 tilvísanir.

Tilvísunaraðilar eru:

  • Heilsugæslan: 24
  • Landspítali: 20
  • Geðheilsa-eftirfylgd: 6
  • Þjónustumiðstöðvar: 5
  • Sérfræðingar á stofu:1
  • Reykjalundur: 1

Nánari upplýsingar um teymið er að finna hér á vefnum.

Á efstu myndinni eru Svanhvít og Hrönn í móttöku teymisins og myndunum hér fyrir neðan eru nokkrir gestanna á opnuninni, þar á meðal Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra.