Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gaf árið 1948 út skilgreiningu á heilsu þar sem segir að heilsa sé fullkomin líkamleg, andleg og félagsleg vellíðan en ekki einungis að vera laus við sjúkdóma og örorku. Þessi skilgreining hefur verið gagnrýnd fyrir að vera draumsýn því að fullkomin vellíðan sé ekki til. Það sé því ekki skynsamlegt að nálgast heilsu á þann hátt, þannig sé eiginlega enginn heilbrigður, sem getur varla verið rétt né gott. Betra sé því að skilgreina heilsu með því sem kallað hefur verið jákvæð heilsa sem er heilbrigði með áherslu á að heilsa sé hæfnin til að geta aðlagað sig og nýtt sjálfstjórn til að horfast í augu við félagslegar, líkamlegar og andlegar áskoranir.
Verum sjálf við stjórnvölinn
Þessi nýja skilgreining á uppruna sinn í Hollandi hjá heimilislækninum Machteld Huber sem hefur helgað sig rannsóknum á nálgun á heilsu. Hún telur mikilvægt að fólk með langvinna sjúkdóma sjái hlutina í samhengi, sé við stjórnina en fari ekki í fórnarlambshlutverkið. Nálgunin snýst því um þrautseigju, að takast á við veikindi, vera sjálfur við stjórnvölinn, finna út hvað er mikilvægast og reyna að aðlagast nýjum veruleika eins og kostur er og halda heilsu þrátt fyrir langvinnan sjúkdóm.
Machteld gerði stóra rannsókn til að komast að því hvaða þættir skipti máli fyrir heilsu. Hún komst að þeirri niðurstöðu að skipta megi jákvæðri heilsu í sex aðalsvið heilsu sem hún kallaði lífshjólið en með því mætti fá innsýn í það hvort líf okkar sé í góðu jafnvægi og hvaða þætti er þörf á að vinna með.
Ráða við aðstæður og finna tilgang
- Eitt svið er líkamleg virkni sem getur þýtt að læknisskoðun núna sýnir engar óeðlilegar niðurstöður, líkamleg geta er í samræmi við aldur, að hafa heilbrigt útlit og orku og vera nánast verkjalaus.
- Andleg vellíðan er annað, þ.e. að hafa andlega hæfni og geta hugsað skýrt, að vera í góðu skapi, sýna jákvæðni og sjálfsöryggi, hafa tök á lífi sínu og ráða við persónulegar aðstæður.
- Þriðja er tilgangur, það er að geta fundið tilgang með lífinu og gert hluti sem skipta máli, hafa hugsjónir og trú á framtíðinni og sætta sig við og vera ánægður með lífið.
- Lífsgæði er það fjórða, þ.e. að upplifa lífsgæði og finna til hamingju megnið af tímanum, geta notið lífsins, finna til heilbrigðis og hraustleika, telja sig blómstra, finna fyrir lífsgleði og vera í góðu jafnvægi.
- Fimmta er þátttaka, en í því felst að geta viðhaldið félagslegum tengslum, hafa stuðningsnet, vera ekki einmana, finna fyrir viðurkenningu eða tilheyra í félagslega umhverfinu, taka þátt og vinna við eitthvað sem telst mikilvægt hvort sem það er launað eða ólaunað.
- Dagleg virkni rekur lestina, þ.e. að geta klætt sig og séð um eigið hreinlæti og heimilishald, geta unnið launað eða ólaunað og vera heilsulæs, þ.e. geta skilið læknisfræðilegar leiðbeiningar og farið eftir þeim.
Skilja eðli og framgang heilsu
Heilsa er þannig mun fjölbreyttari en við höfum hingað til hugsað hana, margt sem hefur áhrif og margt hægt að gera til að halda heilsu. Gildir þar að jafnaði þrautseigja eða langhlaup en ekki skyndilausnir eða sprettir eins og svo oft er reynt að selja fólki í fjölmiðlum og víðar, iðulega sem illa dulbúnar auglýsingar um vöru, kúr eða annað sem á að leysa allan vanda.
Í heilsugæsluna kemur gjarnan fólk með langvinna sjúkdóma og heimilislæknar og annað starfsfólk reynir að hjálpa og leita lausna eins og hægt er miðað við nútímaþekkingu og -tækni. Oft fer eftirlit fram á 3ja til 6 mánaða fresti og stundum árlega eða bara eftir þörfum. Þannig er tíminn sem fer í eftirlit í heilsugæslunni eða annars staðar oftast aðeins nokkrar klukkustundir á ári en allar hinar meira en 8 þúsund klukkustundirnar er fólk með sjálfu sér. Það segir sig því sjálft að það skiptir mjög miklu máli að skilja eðli og framgang veikinda og heilsu og reyna að stjórna lífi sínu og gera það sem hægt er til að bæta líðan og auka lífsgæði.
Elínborg Bárðardóttir, kennslustjóri sérnáms í heimilislækningum, Þróunarmiðstöð íslenskrar heilsugæslu
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu