Kvefi og öndunarfærasýkingum fylgir oft roði í augum eða auga og stundum verulegur gröftur sem lekur úr augunum. Þá getur verið þroti á augnlokum eða svokölluð hvarmabólga (Blepharit). Þetta er í langflestum tilvikum hluti einkenna og alveg saklaust.
Hvarmabólga er mjög algeng og langoftast hættulaus. Einkenni geta þó verið erfið og stundum getur slímhimna augans vaxið inn á hornhimnuna og valdið vandræðum. Tárubólga (Conjunctivitis) er bólga í slímhúð augans eða augnhvítunni og er ekki alveg það sama. Stundum en sjaldnast er hvarmabólga vegna sjúkdóma eins og flösuexem eða rósroða.
Einkenni tárubólgu eru:
- Graftarkennd útferð úr augum.
- Augun oft límd saman á morgnana
- Roði í slímhúð/augnhvítu
- Pirringur í augum
Einkenni hvarmabólgu geta verið:
- Sviði í augum
- Pirringur í auga eða augum
- Kláði, sérlega ef ofnæmi er til staðar.
- Roði
- Bjúgur á hvörmum
Nýlega birtist í The New York Times grein um gagn eða gagnsleysi augndropa við tárubólgu sem er hefðbundin sýking í augum. Þar er vitnað til greinar sem nýlega hafði birst í Opthalmology, en það er tímarit American academy of opthalmology, sem er ameríska augnlæknafélagið.
Rannsóknin er áhugaverð. Samtals náði hún til 340.372 þátttakenda um öll Bandaríkin á árunum 2001- 2014. Undanfari þessarar rannsóknar er sú staðreynd að 80% af tárubólgu (Conjunctivitis) orsakast af veirusýkingu og því ekki meðhöndlanleg með sýklalyfjum, hvorki augndropum né öðrum sýklalyfjum.
Aðalhöfundur rannsóknarinnar og greinarinnar er Nakul S. Shekhawat og gerði hann ásamt samstarfsfólki sínu þessa yfirgripsmiklu rannsókn. Í rannsókninni fengu 198.462 manns sýklalyf í augndropaformi og 38.774 sýklalyf blandað í steradropa. Í raun á aldrei eða að minnsta kosti ekki nema í undantekningartilvikum að nota sterablöndur í bráðasýkingum af þessum toga. Í þeim tilvikum geta droparnir gert meira ógagn en gagn.
Bakstrar á augnlok
En hvað er til ráða? Ef hvarmabólga veldur óþægindum má reyna að setja heita bakstra, til dæmis þvottapoka, á augnlok eða auga eða þurrka gröftinn með bómull vættri í soðnu eða köldu vatni.
Ef vandinn dregst á langinn eða er mjög erfiður er bara að leita aðstoðar, hvort sem það er á þinni
heilsugæslustöð, Læknavaktinni eða á stofum augnlækna.
Táravökvi inniheldur sýkladrepandi eða heftandi efni og læknar því flestar sýkingar af þessum toga. Í verstu tilfellum verður líka að nota sýkladrepandi og bólgueyðandi dropa í augun. Hvarmahreinsun og mýkingu þarf oft að halda áfram vikum og mánuðum saman. Jafnvel ævilangt í verstu tilvikunum en þá alltaf í samráð við sérfræðing í augnsjúkdómum.
Saklaus hluti kvefs
Er þetta smitandi? Allt kvef er smitandi, líka það sem kemur í augu. Hvarmabólga er sjaldnast smitandi en tárubólga stundum. Þetta er þó afar sjaldan til vandræða og líkaminn ræður vel við slíkt kvef án aðstoðar nema í undantekningartilvikum.
Það er sem sagt mikilvægt að átta sig á því að tárubólga og hvarmabólga er algengur og að jafnaði saklaus hluti kvefs. Besta meðferðin er að sinna augunum af natni með því að þurrka gröftinn með volgum vættum bómullarhnoðra.
Óskar Reykdalsson heimilislæknir og settur forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins
Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu