Geðheilsuteymi HH suður er nýtt þverfaglegt teymi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) sem sinnir skjólstæðingum 18 ára og eldri með greindan geðsjúkdóm sem hafa þörf á þverfaglegri aðkomu fagfólks. Um er að ræða 2. stigs þjónustu þar sem vandi viðkomandi kallar á meira utanumhald og eftirfylgni en 1. stigs þjónusta getur veitt. Frábendingar í teymið eru virkur fíknivandi og þroskaraskanir.
Teymið sinnir Kópavogi, Hafnarfirði og Garðabæ og býður upp á sömu þjónustu og teymin tvö sem fyrir eru, Geðheilsuteymi HH austur og Geðheilsuteymi HH vestur, sem skipta með sér Reykjavík.
Teymið er ekki flutt í framtíðarhúsnæði en það stendur til bóta á næstu mánuðum. Framtíðarstaðsetning verður í Bæjarlind 1-3 í Kópavogi en teymið er tímabundið til húsa í Álfabakka 16, í húsnæði skrifstofu HH í Mjódd. Í millitíðinni taka starfsmenn teymisins viðtöl á heilsugæslustöðvum í Kópavogi, Garðabæ og Hafnarfirði.
Vegna húsnæðisskorts þarf að forgangsraða beiðnum inn í teymið fyrst um sinn og vonandi verður því sýndur skilningur.
Byrjað var að taka á móti tilvísunum 13.janúar. Tekið er á móti tilvísunum frá fagfólki í heilbrigðis og velferðarþjónustu.
Tilvísunarblað er hér á vefnum á síðu teymisins, einnig er hægt að sækja rafrænt um í Sögunni.
Ef spurningar vakna varðandi tilvísanir og vafaatriði þá er velkomið að hafa samband við Írisi Dögg Harðardóttur teymisstjóra, í síma teymisins 513-6381 eða með tölvupósti.