Undirritaður hefur verið samningur milli Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) og Hvidovre sjúkrahússins í Kaupmannahöfn um rannsókn á rúmlega 2.000 leghálssýnum sem Krabbameinsfélagið tók í lok síðasta árs og sendi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Fyrstu sýnin hafa borist til Kaupmannahafnar og eru niðurstöður þeirra rannsókna væntanlegar í lok vikunnar. Áætlað er að rannsókn allra sýnanna verði lokið fyrir miðjan febrúar 2021.
Við yfirfærsluna frá Krabbameinsfélaginu til HH urðu margvíslegar breytingar á ferlinu sem gerðar voru til að auka næmni rannsóknarinnar og þannig auka líkur á að greina krabbamein ef það er til staðar. Mikilvægur liður í þessu var að innleiða notkun á nýjum skimunarleiðbeiningum í samræmi við tillögu Embættis landlæknis sem leiddi af sér notkun á annarri gerð sýnatökusetta.
Hluti þeirra 2.000 sýna sem Krabbameinsfélagið tók á liðnu ári en sendi órannsökuð til HH um áramótin var tekinn með gömlu sýnatökusettunum sem gera ókleift að fullrannsaka sýnin vegna annarra rannsóknar aðferða.
Niðurstöður rannsókna á þessum sýnum munu einungis leiða í ljós hvort þau séu HPV jákvæð eða ekki. Vegna þessa mun þurfa að endurinnkalla lítinn hluta kvenna úr þessum hópi svo hægt sé að fullrannsaka sýni þeirra. Þetta á aðeins við ef sýni hafa greinst HPV jákvæð.
Samhæfingarstöð krabbameinsskimana mun senda öllum hlutaðeigandi konum bréf og upplýsa um niðurstöðuna.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun bjóða öllum þeim konum sem þurfa að endurtaka leghálssýnið ókeypis sýnatöku á öllum heilsugæslustöðvum landsins óháð því hvar sýnið var tekið.
Konur sem ekki greindust með HPV veiru (HPV neikvæðar) fá boð um skimun frá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana í samræmi við skimunarleiðbeiningar Embættis landlæknis.