Staðan í þessari viku
Svör hafa borist við öllum þeim 3.300 sýnum sem hafa verið send utan nema 300 sem berast í þessari viku. Vel gengur að koma sýnum til rannsóknar núna en samt áætlum við að svartími geti verið um 8 vikur næsta mánuðinn. Reiknað er með að 500 sýni verði send utan á mánudaginn og öll sýni verði farin utan fyrir mánaðamót og jafnvægi komið á.
Gæði sýna
Af fyrstu 1.900 sýnum sem hafa verið rannsökuð voru einungis 27 (1.4%) ófullnægjandi. Þar af voru 7 (0,4%) tekin á vegum ljósmæðra og hjúkrunarfræðinga á heilsugæslustöðvum landsins.
Það sýnir að gæði sýnatöku hjá heilsugæslu eru mjög mikil. Þetta er í samræmi við fyrri reynslu en ljósmæður hafa í mörg ár tekið um 60% sýna hér á landi og ófullnægjandi sýni verið fá.
Uppsafnað við yfirfærslu
Við yfirfærslu skimunar um áramótin voru uppsöfnuð órannsökuð sýni 2.400 en þau hafa nú öll verið rannsökuð. Engin sýni hafa týnst.
Konur eru búnar að fá bréf hafi verið mælt með nýrri sýnatöku. Haft verður samband við allar konur sem eru í eftirliti þar sem mælt er með nýju sýni í samræmi við það.
Svör til kvenna
Öll svör hafa borist og verið yfirfarin þó konum hafi ekki borist svör inn á island.is. Haft hefur verið samband við þær konur sem þurfa frekari rannsókn eins og leghálsspeglun.
Konur eiga að geta treyst því að fljótt sé brugðist við þegar niðurstöður krefjast þess þó það hafi dregist lengur en vonir stóðu til að fá svör við sýnum.
Hafi ekki verið haft samband við konur má reikna með að sýni þeirra hafi verið eðlileg eða mælt verði með eftirliti eftir 6 eða 12 mánuði. Öllum konum eiga að berast niðurstöður á island.is að lokum.
Vænta má styttri svartíma á næstu vikum og við erum þakklát fyrir þá þolinmæði sem konur almennt hafa sýnt gagnvart þessum breytingum.
Nánari upplýsingar
Á netspjalli á heilsuvera.is er boðið upp á sérstaka svarþjónustu hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra um skimanir fyrir legháls- og brjóstakrabbameinum. Nánari upplýsingar um skimun eru á síðum Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hér á vefnum.
Við bendum líka á svör okkar við algengum spurningum kvenna.
- Skimun fyrir krabbameini í leghálsi – spurningum kvenna svarað - 8. mars
- Skimun fyrir leghálskrabbameini – spurningum kvenna svarað - 26. febrúar