Þann 13. og 14. september verður boðið upp á seinni skammtinn af bóluefni gegn COVID-19 fyrir börn á aldrinum 12-15 ára. Þessi börn fengu fyrri skammtinn 23. og 24. águst.
Börn á þessum aldri sem ekki eru búin að fá fyrri skammtinn eru líka velkomin með sínum árgangi þessa daga.
Forráðamaður sem óskar eftir bólusetningu fyrir barn sitt þarf að fylgja barni í bólusetninguna eða senda staðgengil 18 ára eða eldri með umboð (nóg að það sé handskrifað).
Mikilvægt er að foreldrar og barn ræði saman um bólusetninguna og allir séu sammála áður en mætt er á bólusetningarstað.
Börn 12-15 ára sem fengið hafa COVID-19 geta líka komið og fengið bólusetningu ef meira en þrír mánuðir eru liðnir frá greiningu. Ákveðið hefur verið að þessi börn fái 2 skammta.
Börnum í 7. bekk sem verða 12 ára eftir 1. september býðst bólusetning síðar í haust. Þau geta líka mætt í opið hús á Suðurlandsbraut 34 eftir 12 ára afmælisdaginn.
Á höfuðborgarsvæðinu verður bólusett í Laugardalshöll og forráðamenn beðnir að koma með börn sín samkvæmt eftirfarandi skipulagi:
Mánudagur 13. september | Þriðjudagur 14. september | ||
2006 árgangur | 2008 árgangur | ||
Klukkan: | Börn fædd í: | Klukkan: | Börn fædd í: |
10:00 | Janúar | 10:00 | Janúar |
10:10 | Febrúar | 10:10 | Febrúar |
10:20 | Mars | 10:20 | Mars |
10:30 | Apríl | 10:30 | Apríl |
10:40 | Maí | 10:40 | Maí |
10:50 | Júní | 10:50 | Júní |
11:00 | Júlí | 11:00 | Júlí |
11:10 | Ágúst | 11:10 | Ágúst |
11:20 | September | 11.20 | September |
11:30 | Október | 11:30 | Október |
11:40 | Nóvember | 11.40 | Nóvember |
11:50 | Desember | 11:50 | Desember |
|
|
||
2007 árgangur | 2009 árgangur | ||
Klukkan: | Börn fædd í: | Klukkan: | Börn fædd í: |
12:40 | Janúar | 12:40 | Janúar |
12:50 | Febrúar | 12:50 | Febrúar |
13:00 | Mars | 13:00 | Mars |
13:10 | Apríl | 13:10 | Apríl |
13:20 | Maí | 13:20 | Maí |
13:30 | Júní | 13:30 | Júní |
13:40 | Júlí | 13:40 | Júlí |
13:50 | Ágúst | 13:50 | Ágúst |
14:00 | September | ||
14:10 | Október | ||
14:20 | Nóvember | ||
14:30 | Desember |
Bóluefnið sem verður notað er frá Pfizer/BioNTech og er það bóluefni sem fyrst fékk markaðsleyfi, bæði fyrir fullorðna og síðar fyrir börn á þessum aldri. Það er komin töluverð reynsla á notkun þess fyrir þennan aldurshóp erlendis og hefur gengið mjög vel.
Eins og við aðrar bólusetningar eru algengustu aukaverkanir óþægindi þar sem stungan var gerð og slappleiki/þreyta, hiti og verkir (höfuðverkur eða vöðva- og liðverkir) fyrsta sólarhringinn eftir bólusetninguna, stundum í nokkra daga. Það má nota parasetamól eða íbúprófen í skömmtum skv. fylgiseðli við þessum aukaverkunum. Það eru líka til sjaldgæfar aukaverkanir þar sem kemur fram bólga í gollurshúsi (poki utan um hjartað) eða í hjartavöðvanum sjálfum, 2-3 vikum eftir bólusetninguna, oftast eftir seinni skammt og algengara hjá piltum en stúlkum. Þótt þessar aukaverkanir geti verið óþægilegar og jafnvel uggvekjandi, þá jafnar ástandið sig oftast með hvíld og bólgueyðandi verkjalyfjum. Ef barn fær brjóstverk, talar um skrítinn hjartslátt eða virðist andstutt í hvíld eftir bólusetninguna þarf að leita til læknis.
Það er verið að skoða hvort breytingar á tíðahring, bæði litlar eða miklar blæðingar, hafi tengsl við bólusetningu með þessu bóluefni. Stúlkur á aldrinum 12-15 ára hafa sumar þegar byrjað á blæðingum en aðrar ekki. Það er ekki víst að allar stúlkur á þessum aldri átti sig á því ef breytingar verða þar sem blæðingar eru yfirleitt óreglulegar fyrsta árið eftir að þær hefjast. Eins finnst þeim mörgum óþægilegt að ræða um slíkt og láta ekki endilega vita ef eitthvað er öðruvísi en áður. Það er því mikilvægt að þær fái upplýsingar um að það sé rétt að ræða þetta og hafi tækifæri til að gera það, ef ekki heima þá mögulega við skólahjúkrunarfræðing eða annan heilbrigðisstarfsmann.