Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi

Mynd af frétt Skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi
18.11.2021

Undirbúningur að skimunum fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi er í fullum gangi hjá HH.

Eins og kunnugt er ákvað heilbrigðisráðherra að hefja skuli skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi eins fljótt og auðið er. Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins var falið þetta verkefni í sumar.

Það er að mörgu að hyggja þegar verkefni af þessari stærðargráðu er undirbúið.

Umsjón skimana verður í höndum Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana. Auglýst var eftir verkefnastjóra og ráðningarferli er að ljúka.

Mikil áhersla er lögð á víðtækt samráð á öllum sviðum við alla sem að þessum málum koma. Nú þegar er búið að ræða við marga aðila og áætlað er að stofna vinnuhóp með fulltrúum allra sem að verkefninu koma.

Fyrirliggjandi eru leiðbeiningar frá Embætti landlæknis sem byggja á áliti skimunarráðs til landlæknis. Lagt er til að notaðar verði evrópskar leiðbeiningar en þýðing og staðfærsla er í skoðun.

Stefnt er að því að einstaklingum á aldrinum 50 til 74 ára verði boðin þátttaka en verið er að útfæra hvaða aldurshópur fær boð í fyrsta áfanga. Notuð verða svokölluð FIT-próf. FIT stendur fyrir Fecal innunochemical test. Þátttakendur fá sýnatökusett sent heim, taka sýnið sjálfir og senda til baka.

Aðstaða og tækjabúnaður er til staðar en þarf að fara yfir eins annað varðandi tæknilega útfærslu verkefnisins.

Ein af forsendum verkefnisins er sameiginlegur miðlægur speglanagrunnur til að skrá allar skimunarristilsspeglanir. Slíkur gagnagrunnur hefur verið í undirbúningi en ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær hann verður tilbúinn.

Það er því margt framundan en framvinda þessa mikilvæga verkefnis verður kynnt reglulega hér á vefnum.