Sýnataka vegna Covid-19 færist í Mjóddina

Mynd af frétt Sýnataka vegna Covid-19 færist í Mjóddina
28.04.2022
Sýnatökur vegna Covid-19 færast frá Suðurlandsbraut 34 í höfuðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Mjóddinni frá og með föstudeginum 29. apríl. 

Sýnatakan verður áfram opin virka daga milli 8 og 12 og um helgar milli 9 og 12. Sýnatakan verður í anddyri höfuðstöðva Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Álfabakka 16, ekki í Heilsugæslustöðinni í Mjódd. Eingöngu verður boðið upp á PCR-sýnatökur en hægt er að bóka hraðpróf vegna ferðalaga hjá einkaaðilum.

Þau sem eru með einkenni geta bókað komu í sýnatöku á mínum síðum á vefnum Heilsuveru með rafrænum skilríkjum og er sú sýnataka almenningi að kostnaðarlausu. 

Þau sem þurfa að fara í PCR-sýnatöku vegna ferðalaga geta bókað tíma á vefnum travel.covid.is og kostar sýnatakan og vottorð fyrir ferðamenn 7.000 krónur.

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur verið með starfsemi á Suðurlandsbraut 34 frá því í ágúst 2020, snemma í heimsfaraldrinum. Aðstaðan í húsinu hefur bæði verið nýtt undir bólusetningar og sýnatökur vegna Covid-19. Það eru því talsverð tímamót þegar húsinu verður skilað í byrjun maí eftir tæplega tveggja ára starfsemi.

Þó verulega hafi dregið úr bólusetningum vegna Covid-19 eru þær áfram í boði fyrir þá sem þurfa. Bólusetningarnar fara fram í heilsugæslustöðvum og geta þeir sem á þurfa að halda bókað tíma hjá sinni heilsugæslustöð.