Um 60 sálfræðingar sem starfa á heilsugæslustöðvum og í geðteymum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins tóku þátt í starfsdögunum. Þar var farið yfir þá þjónustu sem veitt er hjá heilsugæslunni út frá ýmsum sjónarhornum. Rætt var um áskoranirnar framundan, styðjandi og valdeflandi þjónustu og mikilvægi þverfaglegrar vinnu. Þá var fjallað um farsældarlögin, þrepaskipta sálfræðiþjónustu og starfsemi greiningarteyma sem starfa á landsvísu, svo eitthvað sé nefnt.
Á vinnustofum var rætt um framtíðarsýn og þróun í sálfræðiþjónustu og þær áskoranir sem eru framundan. Áhersla var lögð á að styðja við þverfaglega vinnu og finna sameiginlega sýn á þjónustuna og auka aðgengi að mikilvægum úrræðum.
Mikill samhugur var á starfsdögunum og þátttakendur sammála um að gott væri að hittast og stilla saman strengi. Fjölmargar hugmyndir komu fram um hvernig bæta megi þjónustuna. Unnið verður úr niðurstöðum starfsdaganna og til stendur að kynna samantekt frá starfsdögum fyrir stjórnendum og starfsfólki Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.