Ýmsir munir tengdir Covid-19 heimsfaraldrinum voru afhentir Þjóðminjasafninu til varðveislu fyrr í dag. Meðal þess sem var afhent var búningur starfsfólks, hlífðarbúnaður, merkingar og tóm lyfjaglös undan bóluefni.
Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, afhenti Hörpu Þórsdóttur þjóðminjaverði munina á skrifstofu heilsugæslunnar fyrr í dag.
„Þó margir vilji kannski gleyma heimsfaraldrinum sem fyrst er mikilvægt að varðveita muni sem voru notaðir við þessar einstöku aðstæður í sögu þjóðarinnar,“ sagði Ragnheiður Ósk. „Okkar starfsfólk gætti sem betur fer vel að því að varðveita þessa muni og það er sérstaklega ánægjulegt að afhenda þá Þjóðminjasafninu. Vonandi þurfum við ekki að heyra í þeim og fá þetta til baka á næstunni,“ sagði Ragnheiður.
Allir munirnir í einangrun
„Ég þakka kærlega fyrir þessa góðu gjöf, þessir munir verða hér eftir varðveittir um aldur og æfi á Þjóðminjasafninu,“ sagði Harpa þegar hún hafði undirritað samkomulag um afhendingu munanna fyrir hönd safnsins.
Almenningur þekkir það vel að hafa þurft að fara í einangrun eftir covid-smit. Það er því afar viðeigandi að allir munirnir sem Þjóðminjasafnið fékk afhenta fari nú í einangrun í sex mánuði. Það verklag einskorðast reyndar ekki við muni tengda heimsfaraldrinum heldur er það vinnuregla fyrir flesta muni sem afhentir eru safninu.