Heilsugæslan Garðabæ flytur tímabundið vegna eldsvoða

Mynd af frétt Heilsugæslan Garðabæ flytur tímabundið vegna eldsvoða
12.03.2024

Heilsugæslan Garðabæ flytur tímabundið 18. mars í tímabundna aðstöðu á meðan húsnæði stöðvarinnar við Garðatorg verður þrifið og endurnýjað. Eldur kom upp í aðliggjandi húsnæði á Garðatorgi  og varð talsvert tjón á stöðinni af völdum reyks sem barst um bygginguna.

Fólki með bráð erindi er bent á að hringja í síma 1700 eða hafa samband í gegnum netspjall Heilsuveru. Starfsfólk Upplýsingamiðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins mun veita ráðgjöf.

Mun flytja tímabundið í Þönglabakka 1

Búið er að koma upp tímabundinni aðstöðu fyrir alla starfsemi Heilsugæslunnar Garðabæ á einum stað á meðan viðgerðir á Garðatorgi standa yfir. Mánudaginn 18. mars mun  stöðin opna í húsnæði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við Þönglabakka 1 í Mjóddinni. Nauðsynlegt er að bóka tíma.

Óvíst er á þessu stigi hversu lengi stöðin á Garðatorgi verður lokuð en umtalsvert tjón varð á fasteigninni, húsgögnum, tölvubúnaði og lækningatækjum sem þar voru. Ljóst er að vinna við þrif og endurnýjun mun taka einhverjar vikur að lágmarki.

 

 

Fréttin var uppfærð 15. mars klukkan 11:47 þegar upphafsdagur starfsemi í Þönglabakka  1 lá fyrir