Bráð erindi færast af síðdegisvakt á dagvinnutíma

Mynd af frétt Bráð erindi færast af síðdegisvakt á dagvinnutíma
01.07.2024

Með breyttu verklagi á heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er reynt að sinna bráðum erindum sem fyrst á dagvinnutíma í stað þess að fólk þurfi að bíða eftir því að koma á síðdegisvakt eftir klukkan 16.

Fólki með bráð erindi er bent á að hringja í síma 1700 eða 513 1700, eða hafa samband í gegnum netspjall Heilsuveru. Þar meta hjúkrunarfræðingar erindið og koma í réttan farveg. Þurfi fólk að hitta lækni fær það bókaðan tíma samdægurs eða daginn eftir. Síminn er opinn allan sólarhringinn en netspjallið milli 8 og 22 alla daga vikunnar.

Með þessu er verið að nýta tíma heilbrigðisstarfsfólks betur og spara skjólstæðingum óþarfa bið á síðdegisvakt. Þá sýnir reynslan að hægt er að leysa úr talsverðum fjölda erinda með ráðgjöf hjúkrunarfræðings í síma og á netspjalli sem sparar fólki óþarfa komu á heilsugæslustöð.

„Okkar markmið er að tryggja að fólk fái rétta þjónustu á réttum stað og réttum tíma,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Við viljum færa okkur frá þessu kerfi þar sem fólk þurfti að sitja heima og koma svo með öll bráð erindi á síðdegisvakt og oft bíða eftir því að komast að. Þessi í stað viljum við sinna bráðum erindum á dagvinnutíma sem er betra fyrir bæði skjólstæðinga og heilbrigðisstarfsfólkið okkar.“

Ráðgjöf vegna veikinda

Netspjallið og 1700 síminn eru ætluð þeim sem þurfa aðstoð eða ráðgjöf vegna veikinda. Einnig er hægt að fá ráðgjöf með því að hringja í sína heilsugæslustöð.

  • Fólki í neyð er bent á að hringja í síma 112.
  • Tímabókanir hjá heilsugæslu fara fram hjá viðkomandi heilsugæslustöð.
  • Afgreiðsla vottorða fer fram í gegnum heilsugæslustöð viðkomandi.Endurnýjun lyfseðla fer fram í lyfjasíma heilsugæslustöðvar og í gegnum Mínar síður á Heilsuveru.

Fólk er einnig hvatt til að nýta sér þekkingarvef Heilsuveru. Þar eru upplýsingar um sjúkdóma og einkenni þeirra settar fram á skýran hátt. Allt efni er unnið af fagfólki og lögð mikil áhersla á að allir geti nýtt sér efnið.

Á Heilsuveru er einnig hægt að opna þjónustuvefsjá til að finna næstu heilsugæslustöð hvar sem er á landinu. Það getur til dæmis nýst vel ef eitthvað kemur upp á ferðalögum landsmanna í sumar. Þekkingarvefur Heilsuveru er samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Embættis landlæknis og Landspítalans.