María Heimisdóttir ráðin yfirlæknir á Upplýsingamiðstöð HH

Mynd af frétt María Heimisdóttir ráðin yfirlæknir á Upplýsingamiðstöð HH
26.08.2024

María Heimisdóttir læknir hefur verið ráðin í starf yfirlæknis hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH). Hún mun sinna starfi yfirlæknis á Upplýsingamiðstöð HH auk þess að starfa sem yfirlæknir í sérstökum verkefnum á skrifstofu forstjóra HH. 

Um er að ræða nýja stöðu yfirlæknis á Upplýsingamiðstöð HH sem ætlað er að styrkja enn frekar faglega starfsemi miðstöðvarinnar. María mun taka þátt í stefnumótun og þróun starfsemi Upplýsingamiðstöðvarinnar og mótun verklags varðandi læknisfræðileg málefni. Þá mun hún koma að áframhaldandi þróun þekkingarvefsins Heilsuveru. 

Sem yfirlæknir á skrifstofu forstjóra mun María taka þátt í þróun á þjónustu HH, einkum á sviði nýsköpunar og gæða með skilvirkni og árangurstengingu að markmiði. Þá mun hún koma að öðrum verkefnum á borð við samningagerð, þátttöku í vinnuhópum og fleiru. 

María lauk embættisprófi í læknisfræði frá HÍ árið 1990, MBA námi frá University of Connecticut 1997 og doktorsprófi í lýðheilsu frá University of Massachusetts árið 2002. Hún fékk sérfræðiréttindi árið 2003. María starfaði hjá Íslenskri erfðagreiningu frá 1999 til 2003 og á Landspítalanum frá 2003 til 2018, meðal annars sem yfirlæknir hagdeildar og framkvæmdastjóri fjármála, auk þess sem hún leiddi þróun rafrænnar sjúkraskrár um árabil. María var forstjóri Sjúkratrygginga Íslands frá 2018 til 2022. Hún hefur sinnt kennslu og rannsóknum samhliða öðrum störfum. 

Starfsfólk Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins býður Maríu velkomna til starfa.