Boðað verkfall lækna mun hafa áhrif á þjónustu

Mynd af frétt  Boðað verkfall lækna mun hafa áhrif á þjónustu
18.11.2024

Verði af boðuðu verkfallsaðgerðum Læknafélags Íslands munu þær hafa áhrif á þjónustu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Öryggismönnun lækna verður á öllum heilsugæslustöðvum en aðeins mjög bráðum erindum sinnt.

Boðaðar verkfallsaðgerðir hefjast 25. nóvember næstkomandi, náist ekki samningar fyrir þann tíma. Verkfall hefur verið boðað á öllum vinnustöðum lækna frá miðnætti fram til klukkan 12 á hádegi þá daga sem verkfallið stendur.

Engin læknisþjónusta verður á heilsugæslustöðvum fyrir hádegi þá daga sem verkfallið verður. Þjónusta sem ekki kallar á aðkomu lækna, til dæmis ungbarnavernd, mæðravernd og fleira verður óbreytt. 

„Auðvitað vonum við í lengstu lög að kjaradeilan leysist og ekki þurfi að koma til verkfalls,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. „Komi til verkfalls mun það hafa mikil áhrif á okkar starfsemi enda þegar mikil eftirspurn eftir læknisþjónustu.“

Verkfall hefur verið boðað frá miðnætti fram til hádegis á eftirfarandi dagsetningum:

  • 25. nóvember (mánudag) til 28. nóvember (fimmtudag).
  • 3. desember (þriðjudag) til 5. desember (fimmtudag).
  • 9. desember (mánudag) til 12. desember (fimmtudag).
  • 16. desember (mánudag) til 18. desember (miðvikudag).

Hlé verður á verkfallsaðgerðum frá 20. desember til og með 5. janúar 2025. Aðgerðirnar halda svo áfram mánudaginn 6. janúar 2025 með sama hætti, í fjögurra vikna lotum með sama hætti og hér að ofan, alveg fram að dymbilviku.

Lesa má nánar um verkfallsboðunina á vef Læknafélags Íslands.