Öflugt samstarf vegna barna í viðkvæmri stöðu

Mynd af frétt Öflugt samstarf vegna barna í viðkvæmri stöðu
05.12.2024
Samstarfsyfirlýsing vegna barna í viðkvæmri stöðu í Reykjavík var undirrituð í gær. Á grundvelli hennar munu stofnanir vinna saman að því að tryggja umönnun og vernd barna gegn ofbeldi eða annarri vanvirðandi starfsemi. 

Aðdragandi samstarfsyfirlýsingar er vinna sem unnin var af ríki og Vestmannaeyjabæ árið 2020. Lengi hefur verið skortur á samstarfi milli stofnana ríkis og sveitarfélaga þegar kemur að málefnum barna í viðkvæmri stöðu sem eru aðilar að ofbeldismálum, annars vegar þeirra sem beita ofbeldi og hins vegar þeirra sem verða fyrir ofbeldi.

Í framhaldi af vel heppnaðri yfirlýsingu í Vestmannaeyjum var ákveðið að gera sambærilega tilraun með borgarhluta (í Breiðholti), bæjarfélagi (með Mosfellsbæ) og landshluta (á Norðausturlandi). Samstarfsaðilar voru þeir sömu og nú, sveitarfélag með heilsugæslu, skólum, frístundastarfi, félagsþjónustu og barnavernd, sýslumanni og lögreglu. 

Samstarfsyfirlýsingin er í takt við lög um samþættingu þjónustu í þágu farsældar barna þar sem samstarfsaðilum ber að fylgjast með þörfum barna, bregðast við og koma á samstarfi.

Fjölmargir komið að verkefninu

Mikill metnaður hefur verið lagður í að koma á samningi fyrir alla borgina og tóku á annað hundrað manns þátt í vinnustofu í Valsheimilinu í haust, þar sem málefni barna í viðkvæmri stöðu var til umræðu. Sambærilegar vinnustofur verða haldnar fyrir allar miðstöðvarnar í Reykjavík. Markmið vinnustofanna er að auka líkur á farsæld barna með því að efla samvinnu aðila innan borgarhluta sem sinna þeim og sérstaklega aðila sem eiga snertiflöt við börn sem teljast vera í viðkvæmri stöðu vegna ýmiss konar ofbeldis og vanrækslu.

Fulltrúar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í þessari vinnu hafa verið ljósmæður, skólahjúkrunarfræðingar í grunn og framhaldsskólum, sálfræðingar barna og fullorðinna, félagsráðgjafar, tengiliðir farsældar og teymisstjórar fjölskylduteyma.