Frumkvæðisathugun Persónuverndar á HH lokið

Mynd af frétt Frumkvæðisathugun Persónuverndar á HH lokið
17.02.2025
Frumkvæðisathugun Persónuverndar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins (HH) vegna samninga um aðgang heilbrigðisstarfsfólks utan stofnunarinnar að sjúkraskrá er nú lokið. Persónuvernd ákvað að leggja fimm millljóna króna stjórnvaldssekt á HH vegna málsins en tekur fram að ekkert tjón hafi orðið og enginn grunur um misnotkun á aðganginum.

Persónuvernd hóf frumkvæðisathugun vegna málsins síðasta haust. HH brást þegar við athugasemdum stofnunarinnar með því að rifta hluta þeirra samninga sem um var að ræða og upplýsti jafnframt um málið á vef stofnunarinnar. Þeir samningar sem ekki var rift, til dæmis samningar um aðgengi einkarekinna heilsugæslustöðva á höfuðborgarsvæðinu að sjúkraskrá, voru sendir til staðfestingar til heilbrigðisráðuneytisins. Persónuvernd gerir í ákvörðun sinni ekki athugasemdir við það verklag enda verði að ætla að ríkir hagsmunir sjúklinga standi til þess að samningarnir standi óbreyttir þar til ákvörðun heilbrigðisráðherra um leyfisveitinguna liggi fyrir. 

Tekið er fram í ákvörðun Persónuverndar að ekkert tjón virðist hafa orðið vegna málsins og að HH hafi brugðist hratt við athugasemdum stofnunarinnar. Eftir úttekt HH er enginn grunur um að þeir sem fengu aðgengi að sjúkraskrá með samningunum hafi misnotað aðganginn á nokkurn hátt.

Byggðu á samningi sem var samþykktur

Samningarnir byggðu á eldri samningi um aðgengi Heilsugæslunnar Lágmúla að sjúkraskrá sem var gerður að frumkvæði heilbrigðisráðuneytisins. Alls var um 12 samninga að ræða við eftirtalda aðila: Heilsugæsluna Lágmúla, Heimaþjónustu Reykjavíkur, Heilsugæsluna Höfða, Heilsugæsluna Salahverfi, Heilsugæsluna Urðarhvarfi, Knattspyrnusamband Íslands, Fluglæknasetrið, Samgöngustofu, Janus endurhæfingu, Heilsugæsluna Höfða Suðurnesjum, Velferðarsvið Reykjavíkurborgar og Vinnumálastofnun. 

Niðurstaða Persónuverndar var sú að HH hafi átt að afla leyfis frá stofnuninni og fá samningana staðfesta af heilbrigðisráðuneytinu, sem hafi ekki verið gert. HH gengst við því að annmarkar hafi verið á meðferð samninganna. Þegar hefur verið brugðist við athugasemdunum Persónuverndar og er vinna við að fá samningana staðfesta þegar í gangi. Að öðru leyti lítur HH svo á að málinu sé lokið.