Um þrjú ár eru síðan fyrsta segulörvunarmeðferðin við meðferðarþráu þunglyndi var veitt á Heilaörvunarmiðstöðinni. Miðstöðin veitir meðferð sem felst í segulörvun á heila með sérhæfðum lækningartækjum og sérþjálfuðu starfsfólki. Skjólstæðingar koma daglega í fjórar til sex vikur í senn í stutta meðferð sem krefst ekki svæfingar, deyfingar né skurðaðgerðar. Meðferðin beinist að afmörkuðu svæði heilans og hefur ekki bein áhrif á önnur líffæri.
„Þetta er mikilvægur áfangi fyrir starfsemi Heilaörvunarmiðstöðvarinnar, sem hefur á þessum þremur árum veitt fjölmörgum einstaklingum með alvarlegt meðferðarþrátt þunglyndi nýja von með segulörvun,“ segir Jón Gauti Jónsson, teymisstjóri Heilaörvunarmiðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Tryggir rekstur mikilvægs úrræðis
„Fjármögnunin mun tryggja áframhaldandi rekstur og þróun Heilaörvunarmiðstöðvarinnar sem mikilvægs meðferðarúrræðis innan heilbrigðiskerfisins,“ segir Jón Gauti. Talið er að á bilinu fimm til tíu prósent landsmanna glími við þunglyndi.
Í nýlegri rannsókn á árangri Heilaörvunarmiðstöðvarinnar kemur fram að um 32 prósent þeirra sem luku meðferð náðu fullum bata. Þá hafði mun hærra hlutfall ávinning af meðferðinni án þess þó að ná fullum bata.