„Þetta er langþráður áfangi sem nú er að raungerast og stórt skref í lýðheilsumálum. Ristil- og endaþarmskrabbamein er þriðja algengasta krabbameinið sem greinist á Íslandi og um tíu prósent allra krabbameina sem greinast. Meðalaldur við greiningu eru 69 ár. Með snemmgreiningu má finna þessi mein á byrjunarstigi og þá eru oftast góðar líkur á lækningu. Það er því til mikils að vinna og mikið gleðiefni fyrir okkur öll að þessum áfanga sé nú náð,“ segir Alma D. Möller heilbrigðisráðherra.
„Við höfum unnið lengi að undirbúningi lýðgrundaðrar skimunar fyrir þessari tegund krabbameina og því virkilega ánægjulegt að vera komin af stað,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir Samhæfingarstöðvar krabbameinsskimana hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
„Þetta er sögulegur áfangi, við höfum verið að skima fyrir krabbameini í brjóstum í nærri fjóra áratugi og leghálskrabbameini í 60 ár og nú er kominn tími til að bæta þessari þriðju tegund skimana við,“ segir Ágúst Ingi.
Sjálfspróf send heim
Markmiðið með skimuninni er að greina forstig krabbameins eða krabbamein á byrjunarstigi hjá einkennalausu fólki. Góður árangur hefur náðst í skimunum fyrir brjóstakrabbameini og leghálskrabbameini og standa vonir til þess að sama gildi um skimun fyrir krabbameini í ristli og endaþarmi.
Eins og með hinar skimanirnar fær fólk fyrst sent bréf í gegnum Heilsuveru þar sem því er boðið að taka þátt. Ólíkt hinum skimununum þarf fólk ekki að fara úr húsi, heldur fær það sent sjálfspróf heim og einfaldar leiðbeiningar um hvernig á að taka sýni. Sýnið er sett í póst eða skilað á heilsugæslustöð á höfuðborgarsvæðinu. Svar berst á Heilsuveru innan fjögurra vikna.
Greina blóð í hægðum
Skimunin gengur út á að kanna hvort blóð sé í hægðum, en það getur verið merki um forstig krabbameins eða krabbamein á byrjunarstigi. Í þeim tilvikum sem blóð greinist fær viðkomandi boð um að fara í ristilspeglun til þess að kanna nánar ástæður þess, enda geta orsakir verið aðrar og saklausari en krabbamein. Þegar ekki greinist blóð í hægðum fær fólk boð um skimun aftur að tveimur árum liðnum.
Á hverju ári greinast um 190 einstaklingar með krabbamein í ristli eða endaþarmi hér á landi. Einn af hverjum 20 einstaklingum fær þessa tegund krabbameins á lífsleiðinni.
Einn af hverjum sex lifir vegna skimunar
„Því fyrr sem við greinum forstig krabbameins eða krabbamein því auðveldari verður meðferðin og því betri verða lífslíkurnar,“ segir Ágúst Ingi. „Rannsóknir sýna að reglubundin skimun lækkar dánartíðni af völdum sjúkdómsins verulega. Með skimunum fækkar þeim sem látast af völdum sjúkdómsins um 15 prósent, sem þýðir að einum af hverjum sex sem ella hefðu látist er forðað frá því að deyja af völdum hans.“
Þegar skimunin verður komin í gang verður skimað fyrir blóði í hægðum hjá fólki á aldrinum 60 til 74 ára. Þau sem nú eru að fá boð um að taka þátt í prufuhópnum eru 69 ára. Eftir að prófunum lýkur verða boð um þátttöku í skimun send á fólk á skimunaraldri en í áföngum eftir aldri og verður byrjað á fólki sem er 68 og 69 ára.
Vandaður undirbúningur
Undirbúningur fyrir þessa nýju tegund lýðgrundaðrar krabbameinsskimunar hefur verið í gangi hjá Samhæfingarstöð krabbameinsskimana frá árinu 2021 í náinni samvinnu við heilbrigðisráðuneytið, embætti landlæknis, Sjúkratryggingar Íslands og Landspítala ásamt faghópi lækna og annarra. Aðdragandinn er þó enn lengri, en segja má að undirbúningur hafi byrjað fyrir nærri aldarfjórðungi. Mikil vinna hefur verið lögð í undirbúninginn, til dæmis greiningu á öllum ferlum tengdum skimuninni, smíði á tölvukerfum, samningum um rannsóknir á sýnum, kaupum á búnaði til sýnatöku og mörgu fleiru.
„Þetta hefur vissulega tekið lengri tíma en við vonuðumst eftir í byrjun en það er ekkert áhlaupaverk að setja af stað nýja tegund skimunar. Með góðri samvinnu og samhæfingu allra sem þurfa að koma að þessu verkefni erum við nú tilbúin að bretta upp ermar og byrja að skima,“ segir Ágúst Ingi.
Nánari upplýsingar um krabbameinsskimanir má finna á vefnum skimanir.is.