Vitundarvakning um notkun svefnlyfja

Mynd af frétt Vitundarvakning um notkun svefnlyfja
12.03.2025

Hægt verður að nálgast nýja bæklinga um svefnlyf og góðan svefn á öllum heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og í apótekum. Bæklingarnir voru gefnir út sem hluti af vitundarvakningu um notkun svefnlyfja.

Markmiðið með vitundarvakningunni er að fræða fólk um virkni og margvíslegar aukaverkanir svefnlyfja, stuðla að skynsamlegri notkun þeirra og leiðbeina fólki hvernig það getur bætt svefn sinn án lyfja. Sem hluti af þessu átaksverkefni verður fólk upplýst um öruggar langtíma lausnir við svefnvanda. 

Allar upplýsingar tengt vitundarvakningunni má finna á vefnum sofduvel.is. Allar upplýsingar sem þar má finna byggja á gagnreyndri þekkingu um svefnvandamál. Þær voru þróaðar fyrir sambærilegt átak í Kanada sem hefur  verið notað þar með góðum árangri. Íslenska átakið var þróað af Önnu Birnu Almarsdóttur, prófessor við Kaupmannahafnarháskóla, í nánu samstarfi við Landssamband eldri borgara ásamt fjölda aðila í heilbrigðisþjónustu á Íslandi. 

Til mikils að vinna að hætta á svefnlyfjum

„Eldra fólk á skilið að njóta lífsgæða, að vera virkt, heilbrigt og öruggt. Meðvitund okkar um skaðsemi svefnlyfja og betri lausnir er lykillinn að því að ná þessum markmiðum. Það þarf kjark og þolinmæði til að hætta á svefnlyfjum og mikilvægt að gera það samkvæmt leiðbeiningum því fólk mun fá tímabundin fráhvarfseinkenni. En það er til mikils að vinna,“ sagði Alma D. Möller heilbrigðisráðherra í ávarpi þegar átakinu var hrint úr vör nýverið, eins og fram kemur í frétt heilbrigðisráðuneytisins.

Allar upplýsingar um vitundarvakningu um svefnlyf má finna á vefnum sofduvel.is.