Almennar upplýsingar

icon

Hafa samband



Svarað er í síma 513-6730 þriðjudaga og fimmtudaga frá kl. 11:00 til 12.00
icon

Þjónustutími



Alla virka daga frá kl. 8:00 til 15:00

Geðheilsuteymi ADHD fullorðinna

Teymið sinnir einstaklingum 18 ára og eldri að beiðni heimilis- og heilsugæslulækna.

 

Teymið sérhæfir sig í greiningu og meðferð á taugaþroskaröskuninni athyglisbresti/ofvirkni (ADHD). Teymið starfar á landsvísu.

Fyrir hverja?

Geðheilsuteymi ADHD fullorðinna veitir 2. stigs þjónustu fyrir einstaklinga 18 ára og eldri.

 Geðheilsuteymið starfar á landsvísu með áherslu á þverfaglega samvinnu starfsmanna teymisins og samstarfsaðila á öðrum stigum heilbrigðisþjónustu.
 
 Meginverkefni teymis eru: 

  • Að annast frumgreiningu og meðferð vegna ADHD hjá fullorðnum.
  • Endurmat vegna ADHD greininga frá barnsaldri.
  • Endurmat vegna ADHD meðferðar á fullorðinsaldri, hafi rof orðið í meðferð og lyfjaskírteini runnið út.
  • Að veita mat vegna áframhalds á ADHD lyfjameðferð fyrir einstaklinga sem flytja til Íslands með ADHD greiningu og lyfjameðferð.

Teymið veitir einnig ráðgjöf og fræðslu til annarra fagstétta. Starfsemi teymisins byggir á sérþekkingu starfsstétta sem starfa innan þess. Teymið vinnur eftir vinnulagi Embættis landlæknis þar sem fagleg gæði og gott viðmót eru höfð að leiðarljósi.
 
Gjald fyrir ADHD greiningu / þjónustu teymisins er 28.235 kr, burtséð frá fjölda heimsókna.

 Aðeins er tekið við tilvísunum frá heimilis- og heilsugæslulæknum.
 

Greinargerðir sjálfstætt starfandi fagaðila

Geðheilsuteymi ADHD fullorðinna tekur ekki við eða metur greinargerðir sjálfstætt starfandi heilbrigðisstarfsmanna. Ákvörðun þessi var tekin eftir uppfærslu á klínískum leiðbeiningum Embættis landlæknis um greiningu og meðferð ADHD.


Hafi inniliggjandi beiðni ásamt greinargerð ekki verið tekin til skoðunar og samþykkt fyrir 19. maí 2023, þá er teyminu ekki fært að gera slíkt. Það á við um allar greinargerðir óháð hvenær greinargerðinni var skilað inn.

 

Verið er að meta hvort hægt sé að nota ósamþykktar greinargerðir sem gilda skimun fyrir greiningarferli innan teymisins, en svo að úrvinnsla beiðnarinnar sé skilvirkari er ákjósanlegt að skila inn fylgigögnum. Hægt er að nálgast fylgigögn til útfyllingar undir dálkinum "Sótt um þjónustu". Fylgigögnum má skila á næstu heilsugæslustöð.

Biðlistar

Haft er samband í gegnum Heilsuveru við þá einstaklinga sem eru á biðlista teymisins. Send er SMS-tilkynning um að þau eigi skilaboð á Heilsuveru. Tilgangur skilaboðanna í Heilsuveru er að upplýsa um stöðu beiðnar hjá teyminu.  


Alltaf eru send skilaboð til að tilkynna ef beiðni er samþykkt á biðlista. Ef við á sendir teymið skilaboð til að staðfesta að beiðni hafi borist teyminu, tilkynna um frávísun frá biðlista og ástæðu þess eða óska eftir frekari upplýsingum svo hægt sé að vinna úr umsókn um þjónustu teymisins. 


Mikilvægt er að lesa innihald skilaboðanna þegar óskað er eftir frekari gögnum eða upplýsingum.
 
Því er mikilvægt að þau sem eiga beiðni hjá ADHD teyminu hafi aðgang að Mínum síðum á Heilsuvera.is og að rétt farsímanúmer sé skráð í Heilsuveru svo að SMS-tilkynningin berist.


Staða beiðnar á biðlista

Geðheilsuteymi ADHD fullorðinna getur ekki veitt nákvæmar upplýsingar um stöðu eða röð beiðnar á biðlista.. Fyrir upplýsingar um núverandi tímabil í innköllun má senda tölvupóst á teymið og sjálfvirkt svar berst með upplýsingum. Sé fyrirspurnin aðeins varðandi stöðu eða röð á biðlista er litið svo á að sjálfvirkt svar nægi sem svar við fyrirspurninni.

 

Ekki er þörf á að hafa samband til að minna á beiðni. Geðheilsuteymi ADHD fullorðinna kallar inn af biðlistum eftir bestu getu, en innköllun fer eftir tegund beiðnar og dagsetningu hennar. Skjólstæðingar geta ekki haft samband og óskað eftir forgang á biðlista.

Hlutverk

Geðheilsuteymi ADHD fullorðinna veitir annars stigs þjónustu fyrir einstaklinga 18 ára og eldri.

 

Sérhæfing teymisins er greining og meðferð á taugaþroskaröskuninni athyglisbresti/ofvirkni (ADHD). Geðheilsuteymið starfar á landsvísu með áherslu á þverfaglega samvinnu starfsmanna teymisins og samstarfsaðila á öðrum stigum heilbrigðisþjónustu.

 

Geðheilsuteymi ADHD fullorðinna veitir heildrænt mat vegna einkenna ADHD. 

 

Hlutverk teymisins er að meta einkenni ADHD yfir æviskeiðið til  að kortleggja áskoranir og hamlanir. Geðheilsuteymi ADHD fullorðinna hefur að leiðarljósi að skoða alla þætti sem hafa áhrif á andlega heilsu. Markmið teymisins er að veita rétta greiningu og meðferð með sérhæfðri þekkingu, heildrænu mati á ADHD og hag skjólstæðingsins fyrir brjósti. Öll þjónusta teymisins er notendamiðuð og lögð er áhersla á samþætta nálgun. 

 

Geðheilsuteymi ADHD fullorðinna styðst við gagnreyndar aðferðir og leiðbeiningar við greiningu og meðferð vegna ADHD. Teymið vinnur eftir vinnulagi Embættis landlæknis þar sem fagleg gæði og gott viðmót eru höfð að leiðarljósi. Lögð er áhersla á að skjólstæðingum sé vísað í það úrræði sem þörf er á að hverju sinni út frá klínísku mati teymisins.

Einstaklingurinn er ávallt í fyrirrúmi

Markmið

  • Að tryggja einstaklingsmiðaða þjónustu. 
  • Að tryggja að greining sé ferli athugana, prófana og viðtala auk upplýsingaöflunar frá þverfaglegu teymi með sérþekkingu í ADHD. 
  • Að tryggja að greining sé kortlagning á styrkleikum og veikleikum í samhengi við umhverfisþætti.
  • Að tryggja að tilgangur greiningar sé að svara hvort að skjólstæðingur hafi frávik, hve hamlandi þau eru og hvaða úrræði gætu gagnast.
  • Að hvetja til sjálfshjálpar og sjálfsvirðingar.
  • Að stuðla að því að eftir greiningu séu úrræði sem efla skjólstæðing í vinnu/námi, samböndum, félagslegum tengslum, frítíma/áhugamálum og sjálfstrausti/sjálfsmynd.
  • Að tryggja samfellu og samþættingu í meðferð.
  • Að stuðla að og viðhalda bata.
  • Að styðja einstaklinginn í að lifa innihaldsríku lífi

Hvernig er sótt um þjónustuna?

Ferlið til að óska eftir þjónustu teymisins hefst með því að bóka tíma hjá þinni heilsugæslu og skila inn nauðsynlegum fylgigögnum. Fylgigögn varðandi frumgreiningu má finna hér til hliðar.

 

Hafir þú verið með ADHD greiningu í bernsku, og þarfnast nú endurmats, þarf að skila inn greiningarskýrslum varðandi fyrri greiningu séu þær ekki til staðar í sjúkraskrá.

 

Hafir þú hlotið greiningu og lyfjameðferð á fullorðinsárum en lyfjaskírteini er ógilt og þarfnast endurmats, þarf læknabréf frá fyrri meðferðaraðila og/eða gögn til staðfestingar svo hægt sé að meta áframhald innan ADHD teymisins.

 

Tekið er við tilvísunum frá heimilis- og heilsugæslulæknum.

Erlend greining og meðferðir

Þau sem flytja til Íslands með ADHD greiningu og lyfjameðferð þurfa mat sérfræðilæknis svo hægt sé að sækja um lyfjaskírteini og veita áframhaldandi lyfjameðferð á Íslandi. Gerðar eru eftirfarandi kröfur varðandi fylgigögnin sem þurfa að berast teyminu:

  • Læknabréf eða greiningargögn sem staðfesta greiningu á norðurlandatungumáli, ensku eða þýdd yfir á íslensku af löggildum þýðanda.
  • Lyfjasaga og núverandi lyf frá meðferðaraðila á norðurlandatungumáli, ensku eða þýdd yfir á íslensku af löggildum þýðanda. 
  • Upplýst samþykkisblað fyrir þjónustu teymisins. 

Gerð er krafa um að greiningin samræmist hefðbundnu greiningarferli, að gögn sýni að viðkomandi sé á viðeigandi lyfjum í réttum skammti og að lyfjameðferð sé orðin gagnreynd og stöðug. Geðheilsuteymi ADHD fullorðinna áskilur sér rétt til að hafa samband við greiningar- og/eða meðferðaraðila sem undirritaði gögnin sem skilað er inn og/eða vísa frá beiðnum sem uppfylla ekki kröfur.

 Teymið tekur ekki við og vísar frá beiðnum varðandi:

  • Áframhaldandi meðferð fyrir fólk búsett á Íslandi sem hefur á ferðalagi erlendis, fengið greiningu og einstaka lyfseðla.
  • Einstaklinga sem hlotið hafa greiningu en ekki fengið neina lyfjameðferð.
  • Einstaklinga sem eru ekki útskrifaðir frá sínum meðferðaraðila og eru enn í aðlögun á lyfjaskammti. 

Þessir einstaklingar þurfa beiðni eftir greiningarferli hjá ADHD teymi.

Fylgigögn

Til að tilvísun vegna frumgreiningar fullorðinna eða endurmats barnagreiningar teljist fullnægjandi, þurfa eftirfarandi gögn að fylgja: 

Sé greining til staðar á athyglisbresti/ofvirkni (ADHD) frá barnsaldri, þurfa öll gögn að fylgja séu þau ekki til staðar í sjúkraskrá.


Ef enginn aðstandandi er til staðar til að fylla út hegðunarmatskvarða C og/eða D, þurfa þær upplýsingar að berast teyminu.

 

Einnig er hægt að nálgast eyðublöðin á flestum heilsugæslum og heilbrigðisstofnunum landsins.

 
 Að auki má senda póst til teymisins til að fá eyðublöð, eða ef þörf er á frekari upplýsingum.

Eyðublöð og matskvarðar á ensku

Forms and rating scales in English

Hvernig er vísað í þjónustuna?

Læknar vísa rafrænt í þjónustuna ef önnur úrræði hafa ekki gefið bót á einkennum, fyrir liggur jákvæð niðurstaða úr skimunarferli og tilvísandi læknir metur sem svo að að þörf sé á aðkomu Geðheilsuteymis ADHD fullorðinna. Tegund tilvísana fer eftir starfsstöð tilvísanda.

  • Heilsugæslur á höfuðborgarsvæðinu nota: Beiðni um meðferð, velja viðeigandi deild og fylla út flýtitexta.
  • Heilsugæslur á landsbyggðinni nota: Tilvísun, velja viðeigandi deild og fylla út flýtitexta.

Hafi læknir ekki aðgang að rafrænni tilvísun í SÖGU kerfinu má finna leiðbeiningar í beiðnapakka Geðheilsuteymis ADHD fullorðinna.

 

Mikilvægt er að tilvísun noti nýjustu flýtitexta og gögn og sé vel útfyllt svo hægt sé að taka afstöðu til hennar. Flýtitextinn minnir á hvað þarf að koma fram. Aðeins er tekið við tilvísunum og gögnum á rafrænu formi. Ófullnægjandi tilvísun verður endursend.

 

Frekari upplýsingar má finna í beiðnapakka Geðheilsuteymis ADHD fullorðinna, meðal annars vegna forgangsóska. Beiðnapakkinn var uppfærður í febrúar 2024 og var sendur á allar heilsugæslustöðvar á landsvísu. Starfsmenn HH geta fundið beiðnapakkann í þekkingarbrunni HH. Uppfærðan beiðnapakka skal nota í öllum tilvísunum. Sé beiðnapakkinn ekki til staðar á þinni starfsstöð má hafa samband við teymið til að fá hann sendan.

 

Þegar tilvísun er send

Öll fylgigögn þurfa að berast rafrænt samhliða tilvísun þegar vísað er til teymisins. Niðurstöður skimunar þurfa að vera til staðar, líkt og þær koma fram í reiknivélinni. 

 

Hægt er að setja reiknivél hegðunarmatskvarða í heild sem viðhengi í SÖGU kerfinu eða í viðhengisdálk á tilvísunareyðublaði. Einnig er hægt að afrita viðeigandi niðurstöðudálka úr skjalinu og setja beint inn í beiðnartextann. 

 

Teymið vinnur fljótlega úr beiðnum sem berast. Ófullnægjandi beiðnum þar sem fylgigögn, flýtitexta eða niðurstöður vantar er vísað frá. Ef þörf er á aðstoð vegna beiðna má hafa samband við teymið.


Útskrift úr ADHD teyminu

Við útskrift er bréf sent á tilvísandi aðila til að gera grein fyrir niðurstöðu mála hjá viðkomandi skjólstæðingi.

 

Þegar skjólstæðingur greinist með ADHD og þiggur lyfjameðferð, tekur tilvísandi læknir yfir lyfjameðferð við útskrift úr teymi. Upplýsingar varðandi gang í lyfjameðferð og skammtastillingu má finna í læknabréfi sem almennt er sent fljótlega við útskrift.

 

Útskrifaðir skjólstæðingar geta ekki bókað tíma hjá geðlækni teymisins, en læknar geta bókað eftir þörfum símaráðgjöf hjá geðlækni teymisins. 

Hvaða fylgigögn þurfa að berast?

Frumgreining fullorðinna

  • Eyðublað skjólstæðings; Hegðunarmatskvarðar A og B; Hegðunarmatskvarðar C og D;
    Niðurstöður úr hegðunarmatskvörðum.
    • Ef niðurstaða skimunar er neikvæð skal ekki senda beiðni á teymið. Bréf skal senda á skjólstæðing sem má finna í beiðnapakka teymisins.

Endurmat á barnagreiningu

  • Eyðublað skjólstæðings; Hegðunarmatskvarðar A og B; Hegðunarmatskvarðar C og D;
    Niðurstöður úr hegðunarmatskvörðum.
    • Skimun í bernsku getur verið neikvæð hafi árangursrík lyfjameðferð verið til staðar. Í þeim tilfellum telst það ekki neikvæð skimun.

Endurmat á fyrri ADHD greiningu á fullorðinsárum, með lyfjameðferð

  • Læknabréf eða gögn sem staðfestir greiningu og lyfjameðferð.

Erlendar greiningar og lyfjameðferð

Eftirfarandi fylgigögn eru nauðsynleg:

  • Læknabréf eða greiningargögn sem staðfesta greiningu á norðurlandatungumáli, ensku eða þýdd yfir á íslensku af löggildum þýðanda.
  • Lyfjasaga og núverandi lyf frá meðferðaraðila á norðurlandatungumáli, ensku eða þýdd yfir á íslensku af löggildum þýðanda.
  • Upplýst samþykkisblað fyrir þjónustu teymisins.

Þegar beiðni er send vegna erlendrar greiningar og lyfjameðferðar er gerð krafa um að viðkomandi einstaklingar hafi hlotið greiningu sem samræmist hefðbundnu greiningarferli og hafi gögn þess eðlis, og að viðkomandi sé kominn á viðeigandi lyf í réttum skammti og að lyfjameðferð sé orðin rétt og stöðug.

 

Teymið tekur ekki við og vísar frá beiðnum vegna erlendra greininga varðandi:

  • Áframhaldandi meðferð fyrir fólk búsett á Íslandi sem hefur á ferðalagi erlendis, fengið greiningu og einstaka lyfseðla.
  • Einstaklinga sem hlotið hafa greiningu en ekki fengið neina lyfjameðferð.
  • Einstaklinga sem eru ekki útskrifaðir frá sínum meðferðaraðila og eru enn í aðlögun á lyfjaskammti.

Þessir einstaklingar þurfa beiðni um frumgreiningarferli sé óskað eftir þjónustu teymisins.

Símaráðgjöf geðlæknis

Geðlæknir Geðheilsuteymis ADHD fullorðinna veitir heilbrigðisstarfsfólki ráðgjöf eftir þörfum vegna lyfjameðferðar við ADHD, óháð því hvort skjólstæðingurinn var í þjónustu teymisins.

 

Hægt er að bóka símaráðgjöf beint í gegnum afgreiðslukerfi Sögu eða með því að hafa samband við teymið. Þegar símaráðgjöf er bókuð í afgreiðslukerfi Sögu er valið aðfangið „Símaráðgjöf Geðheilsuteymi ADHD“. Beiðandi bókar símtal á kennitölu viðkomandi skjólstæðings og skráir í athugasemd nafn sitt, starfsstöð og það símanúmer sem ráðgefandi læknir á að hringja í. Ekki skal skrá símanúmer skjólstæðings þar sem símaráðgjöf geðlæknis er aðeins gagnvart fagfólki. 

 

Símaráðgjöf er almennt alla virka mánudaga frá 13:00 – 14:00, en getur fallið niður eða breyst vegna tilfallandi ástæðna.. 

Samvinna

Þjónustan byggir á sérþekkingu starfstétta, þverfaglegri samvinnu starfsmanna teymisins og samstarfsaðilum á öðrum stigum heilbrigðisþjónustu.
 

Í teyminu starfa geðlæknir, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar og skrifstofustjóri. Samsetning fagstétta hverju sinni getur verið mismunandi.

Um teymið

magnifier
StarfsmennStarfsheitiSímiNetfang
Elvar DaníelssonYfirlæknir513-6730
Erla Dögg HalldórsdóttirSkrifstofustjóri513-6730
Jóhanna Mjöll JóhannsdóttirSálfræðingur513-6730
Karen Birna KristinsdóttirSálfræðingurÍ leyfi
Linda Hrönn MargrétardóttirSálfræðingur513-6730
Sandra Sif SæmundsdóttirSálfræðingur513-6730
Sigurður Ýmir SigurjónssonTeymisstjóri513-6730
Sóley J. EinarsdóttirSálfræðingur513-6730
Sólveig Anna DaníelsdóttirSálfræðingur513-6730
Steinunn BirgisdóttirSálfræðingur513-6730
Steinunn Margrét GylfadóttirHjúkrunarfræðingur513-6730