Ferli eftir tilvísun til Greiningarteyma
Allar tilvísanir eru metnar af þverfaglegu inntökuteymi fljótlega eftir móttöku. Ef gögn eru metin fullnægjandi fá foreldrar, tilvísandi og heimilislæknir svar sem staðfesta að barnið sé komið á biðlista og veitir ýmsar viðeigandi upplýsingar.
Ef upplýsingar í tilvísun benda ekki til að þörf sé á aðkomu GMB er málinu vísað frá. Sama á við ef tilvísunargögn eru ófullnægjandi og umbeðin viðbótargögn berast ekki innan tilskilins tíma.
Eftir biðtíma, sem fer eftir stöðu á biðlista og alvöru máls, eru næstu skref þessi:
- Símtal við foreldra og öflun viðbótarupplýsinga, ef þörf krefur.
- Þverfaglegt greiningarferli.
- Skilaviðtal með foreldrum/barni um niðurstöður og æskileg úrræði.
- Skilafundur með foreldrum, skólafólki og e.t.v. fleiri þjónustuaðilum til að ræða niðurstöður, úrræði og eftirfylgd.
Ferli eftir tilvísun til Ráðgjafar- og meðferðarteymis
Allar tilvísanir eru metnar af þverfaglegu inntökuteymi fljótlega eftir móttöku. Ef málið er talið sannarlega eiga heima hjá GMB fá foreldrar, tilvísandi og heimilislæknir svar sem staðfesta að barnið sé komið á biðlista og veitir ýmsar viðeigandi upplýsingar.
Ef upplýsingar í tilvísun benda ekki til að þörf sé á aðkomu GMB er málinu vísað frá.
Eftir biðtíma er haft samband við foreldra og aðra viðeigandi aðila til þess að afla upplýsinga um stöðu málsins. Samkvæmt eðli málsins og í samráði við barn/ungling og forsjáraðila er ýmist veitt ráðgjöf, meðferð eða virkjuð önnur úrræði í öðrum teymum innan GMB, öðrum kerfum og/eða nærumhverfi.
Ferli eftir tilvísun til Fjölskylduteymis
Allar tilvísanir eru teknar fyrir af inntökuteymi sem er skipað lækni, teymisstjóra og meðferðaraðila. Ef upplýsingar í tilvísun benda til þess að þörf sé fyrir aðkomu fjölskylduteymis er tilvísun samþykkt á biðlista og tilvísandi og foreldri/foreldrar fá skilaboð um að tilvísun hafi verið samþykkt á biðlista í teyminu. Á biðtíma er tilvísun skimuð og haft er samband við foreldri/foreldra þegar fer að koma að tímabókun hjá teyminu.
Ef upplýsingar í tilvísun benda ekki til að þörf sé á aðkomu fjölskylduteymis er málinu vísað frá og haft samband við viðeigandi aðila.
Mikilvægt er að tilvísun sé vel útfyllt svo hægt sé að taka afstöðu til hennar. Ófullnægjandi tilvísun verður endursend.