Tökumst á við kvíða og aukum sjálfstraust

Námskeið fyrir foreldra barna 3 – 6 ára með fyrstu einkenni kvíða

Forvarnarnámskeiðið Klókir litlir krakkar er námskeið fyrir foreldra 3 - 6 ára barna sem eru í áhættuhópi fyrir að þróa með sér kvíðaraskanir. 

Námskeiðið miðar að því að fræða foreldra um eðli kvíða og kenna þeim leiðir til að takast á við kvíðahegðun barna sinna og auka sjálfstraust þeirra. 

Vonast er til að með slíku forvarnarnámskeiði verði hægt að minnka kvíðahegðun barna og í sumum tilfellum koma í veg fyrir að börn þrói með sér kvíðaröskun seinna meir.

Fyrirkomulag

Hvert námskeið er 12 klukkustundir og skiptist í 6 skipti, kl. 19:30 - 21:30. Fyrstu 4 skiptin eru  vikulega, síðan líður vika á milli tíma 5 og tíma 6. Rík áhersla er lögð á umræður og virka þátttöku foreldra til að tryggja að efnið nýtist hverjum og einum sem best. Milli tíma vinna foreldrar heimaverkefni sem snúa að því að vinna með kvíðaeinkenni barna sinna. 

Mikilvægt er að foreldrar geti mætt í alla tímana og mælt er með því að báðir foreldrar sæki námskeiðið.

Næsta námskeið 

  • Haust 2024 - fullbókað
  • Næsta námskeið auglýst síðar

Athugið að skimað er inn á námskeiðið og aðeins eru pláss fyrir foreldra 8 barna á hverju námskeiði. Skimun fyrir haustnámskeið 2024 er lokið. Hafið samband á namskeid.gmb@heilsugaeslan.is

Foreldrar verða beðnir um að svara nokkrum spurningalistum fyrir og eftir námskeið til að meta árangur.

Nokkrir aðrir aðilar bjóða upp á námskeiðið, t.d. þjónustumiðstöðvar Reykjavíkurborgar og skólaskrifstofur sveitafélaga. 

Nánar um námskeiðið

Námskeiðið er haldið á vegum Geðheilsumiðstöðvar barna. Leiðbeinendur námskeiðanna eru sálfræðingar á Geðheilsumiðstöð barna sem eru sérfróðir um kvíðaraskanir barna og hafa staðgóða reynslu af vinnu með foreldrum og börnum. 

Þýðing og reynsluprófun námskeiðsins var samvinnuverkefni Þroska- og hegðunarstöðvar, BUGL og tveggja íslenskra útskriftarnema við Háskólann í Árósum.

Verð vegna námskeiðsgagna: 4000 kr. 

Fyrirspurnum er svarað á namskeid.gmb@heilsugaeslan.is