Þyngdarstjórnun og meðferð við offitu

Námskeið um þyngdarstjórnun og meðferð við offitu

Markmið þessa námskeiðs er að þátttakendur fái aðstoð við að byggja upp heilbrigða daglega lífshætti sem styðja við eðlilega þyngdarstjórn líkamans.

Stefnt er að því að í lok námskeiðsins hafi hver þátttakandi í höndum bjargráð og þekkingu til að setja sér raunhæf markmið.

Námskeiðið hentar fólki af öllum kynjum.

Fyrirkomulag námskeiðsins

Hvert námskeið er fjögur skipti og hver tími er 90 mínútur.

Næsta námskeið er 12. mars til 2. apríl.

Það er alltaf á miðvikudögum, frá klukkan 11:00 til 12:30.

Námskeiðið er haldið  í Þönglabakka 1, 2. hæð. Það er sami inngangur og fyrir Læknasetrið, Gáska sjúkraþjálfun og Tannlækna Mjódd.  

Námskeiðsgjald er 16.624 kr.

Staðfestingarpóstur er sendur á netfang þátttakanda við skráningu. Mikilvægt er að tilkynna forföll tímanlega. Hafið samband á heilsubru@heilsugaeslan.is ef staðfestingarpóstur berst ekki og ef forföll verða.

Fara á skráningarsíðu

Efni námsskeiðsins

Þyngdarstjórnunarkerfi líkamans - 12. mars

Fyrst verður fjallað um hvernig þyngdarstjórnunarkerfi líkamans vinna. Hér er horft á hvernig daglegar venjur, mataræði, hreyfing, svefn og andleg líðan geta myndað góðan grunn fyrir þyngdarstjórnun líkamans og hvað gæti komið betra jafnvægi á þessi kerfi. Skoðað er hvernig ofþyngd er áhættuþáttur fyrir versnandi heilsu og hvenær sjúkdómurinn offita er orðinn til.

Leiðbeinendur: Íris Dröfn Björnsdóttir, hjúkrunarfræðingur og Sigrún Kristjánsdóttir, ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur.

Næring og hreyfing - 19. mars

Farið er yfir helstu áhrifaþætti og ráðleggingar er varða fæðuval og hreyfingu. Þátttakendur fá tækifæri til að skoða sitt mataræði og leggja mat á hvað gæti stutt þá í að ná heilsusamlegum fæðuvenjum og finna leiðir að hreyfingu við hæfi.

Leiðbeinendur: Edda Ýr Guðmundsdóttir, næringarfræðingur og sjúkraþjálfari og Óla Kallý Magnúsdóttir, næringarfræðingur

Andleg líðan -  26. mars

Andleg líðan spilar stóran þátt í líkamlegri heilsu og hefur áhrif á þyngdarstjórnun. Rætt verður um bjargráð til að takast á við streitu og erfiðar tilfinningar. Einnig verður farið yfir hvað svefn er og hvaða þættir stjórna svefni. Þá verður rætt um helstu svefnraskanir og áhrif svefns á þyngdarstjórnun. Að síðustu verður farið yfir góðar svefnvenjur og leiðir til að glíma við svefnleysi.

Leiðbeinendur: Auður Ýr Sigurðardóttir, sálfræðingur og Haraldur Sigurður Þorsteinsson, sálfræðingur.

Sérhæfð offitumeðferð - 2. apríl

Fjallað er um sérhæfða meðferð offitu, annars vegar lyfjameðferð og hins vegar efnaskiptaaðgerðir. Skoðað er hvenær slík meðferð á við, hvernig inngripin virka inn í þyngdarstjórnun líkamans og hvert skal leita ef talið er skynsamlegt að nýta slíka meðferð. Skoðað er hvernig þarf að vinna með heilbrigðan lífsstíl samhliða þessum sérhæfðu inngripum og hvernig eftirliti skuli háttað.

Leiðbeinandi: Erla Gerður Sveinsdóttir, heimilislæknir og sérfræðilæknir við offitumeðferð.