Á námskeiðinu er fjallað um hvernig má undirbúa sig fyrir fæðinguna og foreldrahlutverkið.
Hverju er við að búast í aðdraganda fæðingar, í fæðingunni sjálfri og hvernig er hægt bregðast við.
Rætt er um hvernig fæðing byrjar, hríðir, hvernig þær lýsa sér og hvað hefur áhrif á fæðingarferlið. Bent er á leiðir til að auðvelda fæðingu; ýmis ráð og sjálfshjálp.
Einnig er fjallað um inngrip í fæðingu, fæðingu með keisaraskurði, nýburann, fyrstu dagana eftir fæðingu, tengslamyndun og þær breytingar sem verða í fjölskyldu við fæðingu barns og aðlögun að breyttu hlutverki.
Hvatt er til þess að foreldrar þekki viðbrögð við streitu/álagi og finni eigin styrkleika og noti eigin bjargráð. Einnig að verðandi foreldrar ræði þarfir og óskir opinskátt hvort við annað.
Á námskeiðinu eru spurningar vel þegnar og boðið er upp á umræður.
Markmið námskeiðs er að efla sjálfstraust og sjálfshjálp verðandi foreldra í fæðingu, að verðandi foreldrar verði virkir þátttakendur í fæðingunni og styrkja jákvætt hugarfar gagnvart fæðingunni og foreldrahlutverkinu.