Svefnleysi

Mynd af frétt Svefnleysi
07.02.2019

Svefnleysi er nokkuð algengt vandamál en talið er að um 6-10 % fullorðinna í vestrænum löndum uppfylli greiningu fyrir langvarandi svefnleysi. Í talnabrunni Landlæknis frá 2018 kemur fram að um tveir af hverjum þremur fullorðnum Íslendingum (67%) fá nægan svefn eða um 7-8 klst. á nóttu. Rúmur fjórðungur fullorðinna fær því of lítinn svefn (≤6 klst) og eru þar fleiri karlar en konur.  

Mun fleiri upplifa hinsvegar skammvinnan vanda eða ýmis einkenni svefnleysis. Flestir hafa einhvern tímann upplifað að geta ekki sofnað á kvöldin, vaknað upp á næturnar eða vakna mun fyrr en ætlunin var.

Streita er algeng skýring

Svefnleysi getur átt sér ótal mismunandi orsakir. Stundum virðist það koma upp úr þurru en oft er hægt að finna skýringar út frá því sem er að gerast í lífi hvers og eins. Streita er algeng skýring á bráðu svefnleysi og getur það verið tengt við alvarlegar áhyggjur, sorg, hjónabandsörðugleika, erfiðleika í vinnu eða álag í skóla. Einnig geta andleg vandamál í tengslum við þunglyndi og kvíða valdið svefnleysi og ekki má gleyma hinum ýmsu lyfjum sem hafa áhrif á svefn, svo sem sterar og lyf sem virka örvandi á miðtaugakerfi, ásamt áfengisnotkun og koffínneyslu.

Óregla í svefnmynstri, hreyfingarleysi og mikil skjánotkun geta einnig valdið svefnleysi. Einnig er hópur fólks með svefntruflanir án skýringa.  En þrátt fyrir að ástæða finnist fyrir svefnleysinu og álagstímabilið gangi yfir þróast svefnvandinn áfram hjá sumum og verður að langvinnum vanda.

Fólk festist gjarnan í vítahring svefnleysis með þar til gerðri vanlíðan og áhyggjum af afleiðingum svefnleysis. Þá er hætt við að fólk reyni að bæta sér upp fyrir erfiðar nætur, til dæmis með því að leggja sig á daginn eða fara mjög snemma uppí rúm á kvöldin til að hámarka líkur á að sofna á tilsettum tíma. Þetta veldur því að fólk ver oft mjög miklum tíma í rúminu til þess að reyna að sofna og fá hvíld. Það verður hins vegar gjarnan til þess að svefnþrýstingur minnkar, erfiðara er að sofna og því viðhelst svefnleysi til lengri tíma. Því er mikilvægt að aðstoða fólk við að komast á rétta braut aftur ásamt því að veita grunn orsök svefnleysisins viðeigandi meðferð ef það á við.

Langtímanotkun svefnlyfja ekki æskileg

Undanfarna áratugi hafa úrræði við svefnleysi verið í stöðugri þróun. Nýjar leiðbeiningar um meðhöndlun á svefnleysi benda á að hugræn atferlismeðferð við svefnleysi (HAM-S) ætti að vera fyrsta val um meðferð langvarandi svefnleysis. Hægt er að komast í meðferð hjá sálfræðingum á stofu en einnig er boðið uppá netmeðferð í gegnum vefinn betrisvefn.is. Oft er hinsvegar gripið til svefnlyfja sem fyrsta úrræðis.

Svefnlyf geta verið gagnleg í stuttan tíma til að meðhöndla brátt og skammvinnt svefnleysi en langtímanotkun er ekki æskileg. Íslendingar nota mikið af svefnlyfjum samanborið við hin Norðurlöndin en óvíst er hvað veldur þessari miklu notkun. Nokkrar tegundir af lyfjum eru gjarnan notaðar sem svefnlyf og ber þá helst að nefna hin týpísku svefnlyf imovane og stilnoct ásamt kvíðastillandi lyfjum (benzódíazepínum) en einnig eru notuð ofnæmislyf sem hafa þá aukaverkun að fólk verður syfjað, ásamt melatonin og geðlyfjum.

Öllum þessum lyfjum fylgja ýmsar aukaverkanir svo sem syfja og doði á daginn, jafnvægisskortur og minnistruflanir sem geta leitt til þess að einstaklingar detta og hljóta beinbrot, lenda í umferðarslysum og fleira. Þolmyndun á sér einnig stað sem gerir það að verkum að einstaklingur þarf stærri skammt með tímanum til að geta sofnað.

Tinna Karen Árnadóttir, sérnámslæknir í heimilislækningum, Heilsugæslan Árbæ
Erla Björnsdóttir, sálfræðingur og nýdoktor, Háskólinn í Reykjavík

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu

Lestu meira á Heilsuveru: