Inflúensa og bólusetningar

Mynd af frétt Inflúensa og bólusetningar
04.10.2019

Með komu haustsins, fallandi laufum, haustlægðum og kaldara veðurfari getum við farið að búa okkur undir komu árlegs fastagests, inflúensupestarinnar. Inflúensan gengur jafnan árlega sinn hring um jörðina með upphafi á suðurhveli en flytur sig til okkar á norðurhveli yfir köldustu mánuðina, oftast frá október nóvember og fram undir apríllok.

Flensa í fjórum flokkum

Inflúensa er veirusjúkdómur sem veldur alla jafna öndunarfæraeinkennum, svo sem hósta, andþyngslum, beinverkjum og höfuðverk. Sjaldgæfari eru einkenni frá meltingarfærum, svo sem uppköst.
Einkennin koma gjarnan hratt með hita, beinverkjum og höfuðverk, öfugt við kvefpestir sem þróast hægar og valda síður háum hita. Inflúensuveirunni er skipt í fjóra meginflokka; A, B, C og D, þar sem A og B eru aðallega að sýkja okkur mannfólkið.

Algengast er að inflúensa berist á milli manna með úðasmiti eins og hósta og hnerra. Einnig getur hún borist með snertismiti og því er mikilvægt að huga vel að handþvotti til að koma í veg fyrir smit. Meðgöngutíminn, þ.e.a.s. sá tími sem líður frá því að einstaklingur smitast þar til einkenni koma fram, er einn til fjórir dagar. Inflúensa getur haft alvarlegar aukaverkanir í för með sér, einkum meðal aldraðra og einstaklinga með bælt ónæmiskerfi. Af þeim sökum er bólusetning mikilvæg. Veiran er þekkt að því að breyta sér reglulega og því er þörf á árlegri bólusetningu til að viðhalda vörnum gegn sjúkdóminum.

Bólusetning forðar

Talið er að bólusetning forði veikindum í 40-60% tilfella þó að talan sveiflist nokkuð milli ára. Líklegt er að bólusetning valdi mildari sjúkdómi hjá þeim sem veikjast og minni þörf sé á meðferð fylgikvilla, svo sem lungnabólgu, kinnholubólgu og annarra ífarandi sýkinga.

Í október hefjast skipulagðar bólusetningar á heilsugæslustöðvum um allt land og munu þær væntanlega standa fram undir áramót og jafnvel lengur ef þörf á.

Sóttvarnalæknir mælist til að eftirtaldir hópar fái bólusetningu:

  • Allir eldri en 60 ára
  • Öll börn og fullorðnir sem þjást af langvinnum hjarta-, lungna-, nýrna og lifrarsjúkdómum, sykursýki, illkynja sjúkdómum og öðrum ónæmisbælandi sjúkdómum
  • Heilbrigðisstarfsmenn sem annast einstaklinga í áhættuhópum sem taldir eru að ofan
  • Þungaðar konur

Fólk í ofannefndum hópum þarf ekki að greiða fyrir bóluefnið

Margir sem tilheyra áhættuhópum velja jafnframt að fá bólusetningu gegn pneumókokkum, sem eru bakteríur sem valda m.a. lungnabólgum og fleiri alvarlegum sýkingum. Hægt er að fá þá bólusetningu á heilsugæslunni. Mælt er með að fólk eldra en sextugt láti bólusetja sig.

Lyfin notist snemma

Til eru tvenn lyf á markaði á Íslandi sem hægt er að beita gegn inflúensu hjá fólki með alvarlega undirliggjandi sjúkdóma svo sem lungnasjúkdóma eða ónæmisbældra.
Lyf þessi þarf að gefa snemma í sjúkdómsferlinu og geta þá stytt sjúkdómsgang og minnkað líkur á fylgisýkingum 

Ýmsar upplýsingar er að hafa um viðbrögð við inflúensuveikindum hjá fullorðnum sem og börnum á upplýsingavefnum www.heilsuvera.is

 

Ásmundur Jónasson, svæðisstjóri og fagstjóri lækninga, og Margrét Björnsdóttir, fagstjóri hjúkrunar, Heilsugæslunni Garðabæ

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu