Skima fyrir leghálskrabbameini hjá heilsugæslunni

Mynd af frétt Skima fyrir leghálskrabbameini hjá heilsugæslunni
07.11.2019

Regluleg skimun fyrir leghálskrabbameini getur komið í veg fyrir rúmlega 90% tilfella sjúkdómsins. Ein aðalforsenda þess að koma megi í veg fyrir leghálskrabbamein er reglubundin þátttaka í skimun fyrir sjúkdómnum ásamt þátttöku stúlkna í HPV bólusetningum sem öllum stúlkum í 7. bekk stendur til boða. Talið er að bólusetningin veiti 70% vörn gegn leghálskrabbameini. 

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur gefið út að æskileg þátttaka kvenna í skimuninni sé 85% en hér á landi er þátttakan aðeins 67%, sem er undir öllum viðmiðunarmörkum. 

Nýgengi hefur aukist 

Fjöldi kvenna sem greinast með leghálskrabbamein árlega (nýgengi) hefur fjölgað undanfarin ár og konur greinast einnig yngri og með alvarlegra stig sjúkdómsins. Leghálskrabbamein er lýðheilsuvandamál á Íslandi samkvæmt skilgreiningu Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar en nýgengi þess er rúmlega helmingi hærra en viðmið Alþjóða heilbrigðisstofnunarinnar eða tæplega níu tilfelli á hverjar100.000 konur. 
Fjöldi kvenna sem deyja úr leghálskrabbameini árlega hér á landi (dánartíðni) hefur aukist um 50% sl. 10 ár. Bandaríska sóttvarnarstofnunin (CDC) hefur gefið út að engin kona eigi að þurfa að deyja úr leghálskrabbameini. 

Innviðir og þekking til staðar 

Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra hefur ákveðið að fela heilsugæslunni framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini. Skimunin er forvörn sem fellur vel að starfsemi heilsugæslunnar líkt og ungbarna- og mæðravernd og bólusetningar. Allir innviðir og þekking eru til staðar. Haldist framlag Alþingis til skimunar óbreytt ætti að vera hægt að bjóða skimun fyrir leghálskrabbameini gjaldfrjálst á vegum heilsugæslunnar. Það er markmið heilsugæslunnar að þátttaka í skimun og nýgengi leghálskrabbameins verði í samræmi við markmið Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar og þannig fækki þeim konum sem greinast og deyja af völdum leghálskrabbameins hér á landi. 

Ný rannsóknaraðferð verði tekin upp 

Í Svíþjóð, þar sem þátttaka í skimun fyrir leghálskrabbameini er hæst í heiminum, er hún gjaldfrjáls og á vegum heilsugæslustöðva þar sem sýnin eru tekin af ljósmæðrum. Hér á landi er góð reynsla af því að ljósmæður taki frumusýni frá leghálsi og þegar skimun fyrir leghálskrabbameini var færð til heilsugæslustöðva á landsbyggðinni fyrir nokkrum árum voru dæmi þess að þátttaka ykist yfir 20% á sumum stöðum. Heilsugæslan mun einnig styðja það að tekin verði upp ný rannsóknaraðferð við skimun fyrir leghálskrabbamein, eða svokölluð HPV-frumskimun. Næmi hennar til að greina frumubreytingar er um 95% en næmi hefðbundinnar frumuskoðunar er aðeins um 50%. HPV-frumskimun lækkar einnig dánartíðni af völdum leghálskrabbameins og fækkar alvarlegri frumubreytingum. Upptaka HPV frumskimunar er því brýnt gæðamál sem heilsugæslan horfir til að tekin verði upp hér á landi. 

Gagnreynd vísindaþekking 

Heilsugæslan verður vel undir það búin að taka að sér framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini samkvæmt ákvörðun heilbrigðisyfirvalda og mun leggja höfuðáherslu á aukna þátttöku með auknu aðgengi að skimun, faglegri þekkingu, betri skimunaraðferð, viðeigandi og siðferðilegum upplýsingum byggðum á gagnreyndri vísindaþekkingu með heilsufarslega hagsmuni kvenna í forgrunni. 
Þótt miðað sé við að heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu taki ekki formlega við framkvæmd skimunar fyrir leghálskrabbameini af Krabbameinsfélagi Íslands fyrr en 1. janúar 2021 hafa margar heilsugæslustöðvar boðið upp á þessa þjónustu í fjölda ára. 

Á þjónustuvefsjá á heilsuvera.is má sjá hvernig krabbameinsleit er háttað á öllum heilsugæslustöðvum landsins. 

Kristján Oddsson, heimilis-, fæðinga- og kvensjúkdómalæknir, svæðisstjóri Heilsugæslunni Hamraborg 

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu