Byltur og eldra fólk

Mynd af frétt Byltur og eldra fólk
05.12.2019

Byltur eru algengt vandamál hjá eldra fólki og geta þær í sumum tilfellum haft alvarlegar afleiðingar í för með sér. Áætlað er að um þriðjungur fólks 65 ára og eldra detti að minnsta kosti einu sinni á ári og að um helmingur þeirra sem eru 85 ára og eldri detti einu sinni á ári eða oftar. Um 10% bylta fylgja áverkar og um helmingur þeirra áverka eru brot sem geta haft mikil áhrif á lífsgæði þess sem dettur.

Óttinn við að falla getur haft keðjuverkandi áhrif, fólk hreyfir sig minna af ótta við að detta sem getur leitt til skertrar hreyfigetu og að hætta á byltum eykst.

Orsakir

Margir þættir geta valdið byltum meðal eldra fólks, má þá nefna samverkandi þætti á milli sjúkdóma og lyfja, hækkandi aldur, jafnvægisleysi, lélegt næringarástand, vitræna skerðingu, versnandi heyrn og sjón. Mikilvægt er að skoða undirliggjandi orsakir með heimilislækni og/ eða hjúkrunarfræðingi á heilsugæslustöðvum sem geta svo vísað til iðjuþjálfa, sjúkraþjálfara og annars fagfólks eftir þörfum.

Góð ráð til að lágmarka byltur

Reglubundin hreyfing gerir það að verkum að það hægist á öldrunarbreytingum sem verða í líkamanum með hækkandi aldri. Því er mikilvægt að eldra fólk viðhaldi hreyfifærni sinni með reglubundinni hreyfingu sem inniheldur einnig jafnvægis- og styrktaræfingar.

  • Ástundun jafnvægis- og styrktaræfinga er talin vera mikilvæg til að minnka líkur á falli. Eldra fólk ætti að stunda miðlungserfiða hreyfingu í 30 mínútur daglega hið minnsta sem skipta má í nokkur styttri tímabil yfir daginn, t.d. 10-15 mínútur í senn.
  • Góður og viðeigandi fótabúnaður skiptir miklu máli, til dæmis góðir stamir skór, inniskór með hælbandi og mannbroddar í hálku (muna að það er hægt að fá brodda á stafinn).
  • Forðast skal að hafa slysagildrur á gólfinu, t.d. lausar mottur og snúrur sem liggja á gólfi. 
  • Hafa skal lýsingu innanhúss í góðu lagi til að draga úr líkum á að fólk reki sig í og detti. Ef fólk fer fram úr á nóttunni getur verið gott að hafa næturlýsingu.
  • Göngugrindur, griptangir, handföng við baðkar og salerni eru dæmi um hjálpartæki sem auka öryggi í heimahúsum í mörgum tilfellum.
  • Mikilvægt er að hafa hluti í lagi, til dæmis sjónvarp og brauðrist og gera strax við það sem bilar því bilaðir hlutir geta auðveldlega breyst í slysagildru.

Ekki er úr vegi að minnast á mikilvægi þess að taka D- vítamín eða lýsi því sýnt hefur verið fram á að inntaka þess getur dregið úr brotum. Ráðlagður dagskammtur af D-vítamíni er 15-20 míkrógrömm. Jafnframt er mælt með að konur taki um 800 mg af kalki daglega eftir breytingaskeið.

Eldra fólk sem hefur dottið eða upplifir sig í fallhættu ætti að leita á næstu heilsugæslustöð til að fá mat á byltuhættu og ráðgjöf til að fyrirbyggja byltur. Þannig er hægt að auka öryggi og lífsgæði eldra fólks.

Sem betur fer er margt hægt að gera til að fyrirbyggja byltur og með viðeigandi ráðstöfun fækka byltum verulega í samfélaginu. Með því að huga að öryggismálum heimila mætti koma í veg fyrir mörg þessara slysa. Mikilvægt er að eldra fólk og aðstandendur þess þekki áhættuþætti bylta og þekki leiðir til að draga úr þeim. Við bendum fólki á Heilsuveru.is en þar má sjá góðar leiðbeiningar tengdar slysavörnum.

Höfundar eru Anna Ólafsdóttir og Eva Kristín Hreinsdóttir hjúkrunarfræðingar, Heilsugæslunni Hlíðum.

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu