Mikilvægt er að mæðravernd á heilsugæslustöðvum haldi áfram þrátt fyrir COVID-19 faraldurinn. Helsta breytingin er að vegna smitvarna eiga konur að koma einar í mæðravernd, án fylgdarmanns.
Á næstu viku munu ljósmæður afhenda konum sem koma í mæðravernd leiðbeiningabréf vegna COVID-19.
Hér er hluti bréfsins, en einnig er hægt að lesa það í heild.
Til barnshafandi kvenna frá ljósmæðrum í mæðravernd
Margt er enn óljóst hvað varðar hegðun, smit og sýkingaáhrif Covid-19.
COVID-19 virðist ekki leggjast sérstaklega á barnshafandi konur eða nýfædd börn. Það sem nú er vitað um veiruna og áhrif á barnshafandi konur er að veiran getur leitt til öndunarfærasýkingar hjá móður en berst ekki til fósturs. Veiran leiðir ekki til fósturláta svo vitað sé eða smitar fóstur á meðgöngu.
Þú getur stundað þína vinnu eins og áður ef þú ert frísk. Það er mikilvægt að fara eftir fyrirmælum varðandi samkomubann, fjarlægð milli manna og smitgát. Ef eðli starfsins felur í sér aukna smithættu er skynsamlegt að hugsa um leiðir til að draga úr henni; aðlaga verkefnin, færa í önnur verkefni eða vinna heima. Oft má afgreiða samskipti við skjólstæðinga símleiðis eða gegnum rafræn samskipti.
Gert er ráð fyrir að þú komir í mæðravernd án fylgdarmanns og sama gildir um ómun, aðrar skoðanir og komu á fæðingadeild. Einn aðstandandi má vera með þegar fæðing hefst.
Frá 36. viku meðgöngu er æskilegt að halda sig sem mest heima. Ástæðan er ekki sú að þú sért í aukinni hættu á að fá Covid smit/sjúkdóm heldur bæði til að minnka líkur á því að smitast og til að draga úr líkum á því að smita heilbrigðisstarfsfólk. Það er mikilvægt að vernda starfsemi fæðingadeilda eins og hægt er og minnka líkur á því að kona sé smituð þegar hún kemur í fæðingu. Ef þess er kostur er æskilegt að reyna að vinna heima á
þessum tíma eftir því sem við á.
Það er eðlilegt að hafa áhyggjur og þegar þú ert barnshafandi er líklegt að þú hafir líka áhyggjur af ófædda barninu. Áhyggjur geta leitt til þess að maður sýni aukna varkárni og skerpir á skynseminni. Það er hins vegar mikilvægt að láta þær ekki verða stöðugar eða valda ótta sem tekur stjórnina.
Stjórnaðu því sem þú getur. Aflaðu upplýsinga hjá þeim aðilum sem þekkja best til á; heilsugaeslan.is, heilsuvera.is, covid.is, landlæknir.is og hjá ljósmóður á þinni heilsugæslustöð eða annarra heilbrigðisstarfsmanna. Fylgdu leiðbeiningum landlæknis í hvívetna. Þannig getur þú dregið úr líkum á því að smitast.
Ef þú færð einhver einkenni, kvef eða finnst þú vera að verða lasin, vertu þá heima og ekki fara út af heimilinu í vinnu eða búð, fyrr en þú hefur verið einkennalaus í 2 daga. Það er til þess að draga úr líkum á smiti af hvaða pest sem er.
Hugaðu að eigin heilsu, þannig gerir þú það sem vitað er að getur styrkt ónæmiskerfið þitt. Það eykur líkurnar á því að meðgangan og fæðingin gangi vel og þér og barni þínu heilsist vel. Nánari upplýsingar um heilbrigt líferni á meðgöngu má finna á heilsuvera.is.
Hér má lesa bréfið í heild:
Einnig bendum við á Fróðleiksmola í mæðravernd: