Joð mikilvægt á meðgöngu

Mynd af frétt Joð mikilvægt á meðgöngu
09.07.2020

Góð næring á meðgöngu er mikilvæg fyrir vöxt og þroska barns í móðurkviði og stuðlar að heilbrigði þess síðar á ævinni. Mikilvægt er að barnshafandi konur fylgi almennum næringarráðleggingum á meðgöngu til að fyrirbyggja vandamál tengd næringarskorti eins og til dæmis joðskorti. Joðskortur er í fyrsta sinn farinn að mælast á Íslandi og það meðal barnshafandi kvenna. Líkleg skýring á þessum skorti er vegna breytts mataræðis. Dregið hefur verulega úr neyslu á mjólkurvörum og fiski undanfarin ár sérstaklega meðal ungra stúlkna. Nauðsynlegt er að bregðast strax við enda getur joðskortur á meðgöngu haft áhrif á fósturþroska og þroska barnsins eftir fæðingu þess.

Skortur raskar starfsemi skjaldkirtils

Joð er mikilvægt næringarefni sem líkaminn notar í snefilmagni við myndun skjaldkirtilshormóna. Joð er lykilefni til myndunar á skjaldkirtilshormónunum triiodothyronine (T3) og thyroxine (T4) sem gegna mikilvægu hlutverki á meðgöngu og stuðla að eðlilegum vexti, þroska og efnaskiptum fósturs, eftir fæðingu barns og út lífið. Eitt útbreiddasta einkenni joðskorts er röskun á starfsemi skjaldkirtils. Þar sem skjaldkirtillinn reiðir sig á rétt magn af joði getur of mikið eða of lítið magn af því haft áhrif á taugaþroska fósturs sem getur m.a. haft áhrif á það hversu hratt og vel börn læra.

Skjaldkirtillinn er einn af aðalinnkirtlum líkamans og sér um að halda jafnvægi á hormónum hans. Ójafnvægi í starfsemi skjaldkirtils getur leitt til ýmiss konar einkenna, helstu einkenni joðskorts eru m.a. þreyta, þyngdaraukning, svefnleysi, síþreyta og aukin næmni fyrir kulda.

Fóstur framleiða ekki eigin skjaldkirtilshormón fyrr en á öðrum þriðjungi meðgöngunnar og eru því háð skjaldkirtilshormónum frá móður sinni og flutningi þeirra yfir fylgju fram að þeim tíma. Þegar fóstur fara að framleiða eigin skjaldkirtilshormón eru þau samt sem áður háð joði frá móður til að geta framleitt eigin skjaldkirtilshormón. Þess vegna eru barnshafandi konur í sérstökum áhættuhópi.

Borði fisk og neyti mjólkurvara 

Mataræði er helsta uppspretta joðs fyrir líkamann. Helstu joðgjafar fæðunnar eru fiskur, aðallega magur fiskur eins og ýsa og þorskur, og mjólk og mjólkurvörur.

Barnshafandi konur eru hvattar til að borða fisk tvisvar til þrisvar sinnum í viku og tvo skammta af mjólk eða mjólkurvörum daglega. Þannig ætti að nást nægilegt magn af joði til að uppfylla ráðlagðan dagskammt. Ráðleggingar til barnshafandi kvenna er m.a. að finna í bæklingnum Mataræði á meðgöngu og á heilsuvera.is.

Ráðlagður dagskammtur

Ráðlagður dagskammtur af joði er 150 míkrógrömm fyrir fullorðna, 175 míkrógrömm fyrir barnshafandi konur og 200 míkrógrömm fyrir konur með barn á brjósti.
Mælt er með að barnshafandi konur sem eru grænkerar (vegan), með ofnæmi/óþol eða af öðrum ástæðum velja að borða ekki mjólkurvörur eða fisk samkvæmt ráðleggingum, taki fæðubótarefni (fjölvítamín) sem innihalda 150 míkrógrömm af joði á dag. Ætti þá að byrja að taka fæðubótarefnið (fjölvítamínið) eins snemma á meðgöngu og mögulegt er og helst áður en konan verður barnshafandi.
Barnshafandi konur ættu alls ekki að nota þara eða þaratöflur sem joðgjafa þar sem þari getur innihaldið joð í stærri skömmtum en æskilegt er að neyta á meðgöngu og einnig efni sem geta verið skaðleg fyrir fóstrið. Forðast skal inntöku á meira en 600 míkrógrömmum af joði á dag.

Þórdís Björg Kristjánsdóttir ljósmóðir Heilsugæslunni Firði

Greinin birtist fyrst í Morgunblaðinu