Heilsugæslan eflir þjónustu Upplýsingamiðstöðvar

Mynd af frétt Heilsugæslan eflir þjónustu Upplýsingamiðstöðvar
01.06.2022

Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hefur undanfarið leitað leiða til að efla upplýsingagjöf, ráðgjöf og fræðslu til almennings í gegnum Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar. 

Miðstöðin veitir landsmönnum öllum upplýsingar, ráðgjöf og fræðslu í gegnum síma 513-1700, netspjall og vefinn Heilsuveru og er ætlað að bæta flæði og almenna upplýsingagjöf í heilbrigðiskerfinu. Starfsfólkið reynir að leysa úr sem flestum málum í fyrstu viðkomu við kerfið til að auðvelda þeim sem þangað leita að fá rétta þjónustu á réttum stað.

Þjónusta Upplýsingamiðstöðvarinnar verður bætt enn frekar í byrjun september þegar farið verður að veita þjónustu allan sólarhringinn. Miðstöðin mun þá taka við símsvörun sem hingað til hefur verið á hendi Læknavaktarinnar. Með breytingunum er meðal annars verið að tryggja samræmi í upplýsingum sem veittar eru í síma, í gegnum netspjall og á fræðsluvefnum Heilsuveru.

Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar er í dag opin frá klukkan 8 á morgnana til 22 á kvöldin og tekur á þeim tíma við rúmlega 300 símtölum á dag, auk þess sem hjúkrunarfræðingar hringja að meðaltali tæplega 100 símtöl í skjólstæðinga til að veita ráðgjöf. Þá koma læknar að starfseminni með því að sinna ráðgjöf þegar þörf krefur.

Mikil ánægja með stafræna þjónustu

Netspjallið í gegnum vefinn Heilsuveru er mikið notað og berast um 900 netspjöll á hverjum degi. Notast er við spjallmennið Veru til að svara algengum spurningum. Þróun Veru hefur gengið mjög vel og í dag svarar hún um þriðjungi fyrirspurna sem koma inn. Ný könnun á þjónustu ríkisstofnana sýndi að um 90 prósent þeirra sem leitað hafa til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafa nýtt sér stafræna þjónustu hjá stofnuninni og að um átta af hverjum tíu eru ánægðir með þjónustuna.

Upplýsingamiðstöðin heldur einnig utan um vefinn Heilsuvera.is sem er samstarfsverkefni Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, Embættis landlæknis og Landspítalans. Á vefnum er almenningi veitt áreiðanleg fræðsla um heilsu og sjúkdóma á auðskiljanlegan hátt. Vefurinn er í dag einn af mest sóttu vefsvæðum landsins. Um 15 milljón flettingar voru skráðar á vefnum á árinu 2021, eða rúmlega 40 þúsund á dag að meðaltali.