60 ára og eldri fá bólusetningu í Laugardalshöll

Mynd af frétt 60 ára og eldri fá bólusetningu í Laugardalshöll
08.09.2022
Boðið verður upp á örvunarskammt af bóluefni við Covid-19 fyrir 60 ára og eldri í Laugardalshöll í lok september. Samhliða verður þeim sem vilja boðið upp á bólusetningu við inflúensu.

Bólusetningin fer fram á tveggja vikna tímabili, frá þriðjudeginum 27. september til föstudagsins 7. október, í anddyri Laugardalshallar. 

Þau sem hafa fengið þrjá skammta af bóluefni og hafa náð 60 ára aldri munu fá boð í bólusetningu. Minnst fjórir mánuðir verða að hafa liðið frá því viðkomandi fékk síðast bóluefni við sjúkdóminum.

Sóttvarnalæknir hefur nú heimilað að gefa á sama tíma bóluefni við Covid-19 og bóluefni við inflúensu. Þau sem koma í bólusetningu hafa því val um hvort þau fá bæði bóluefnin á sama tíma eða aðeins annað þeirra. 

Örvunarskammtar með nýju bóluefni

Stefnt er að því að nota nýjar útgáfur af bóluefnum frá Moderna og/eða Pfizer sem eiga að virka betur gegn því afbrigðum veirunnar sem nú eru í gangi. Ef einhverjir hafa ekki fengið grunnbólusetningu munu viðkomandi fá upprunalegu bóluefnin þar sem ekki hefur verið staðfest að nýju bóluefnin séu jafnvirk þeim eldri við þá notkun.

Bólusetning við Covid-19 verður landsmönnum áfram að kostnaðarlausu en innheimt verður hefðbundið komugjald fyrir bólusetningu við inflúensu.

Yngri en 60 ára bólusett á heilsugæslustöðvum

Þegar bólusetningarátaki 60 ára og eldri verður lokið er stefnt að því að bjóða yngri en 60 ára sem vilja örvunarskammt upp á bólusetningu á heilsugæslustöðvum. Þar verður einnig boðið upp á bólusetningu við inflúensu á sama tíma fyrir þau sem það vilja.