Vel hefur gengið að bólusetja íbúa höfuðborgarsvæðisins 60 ára og eldri í bólusetningarátaki í Laugardalshöll. Lokadagur bólusetninga í Höllinni er föstudagurinn 7. október.
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins hvetur alla sem hafa náð 60 ára aldri og eiga eftir að fá bólusetningu til að mæta í Laugardalshöll og þiggja bóluefni. Ekki er nauðsynlegt að hafa fengið boð heldur er opið hús milli klukkan 11 og 15.
Hægt er að velja um að fá eftirfarandi bólusetningar:
- Þriðja eða fjórða skammtinn af bóluefni gegn Covid-19.
- Bóluefni við inflúensu.
- Bæði bóluefni gegn Covid-19 og bóluefni við inflúensu.
Fjórir mánuðir þurfa að hafa liðið frá því einstaklingur fékk síðast bóluefni við Covid-19. Notast verður við nýja útgáfu af bóluefni við Covid-19 og verður því ekki boðið upp á grunn bólusetningu fyrir þá sem ekki hafa verið bólusettir áður.
Fólk er vinsamlegast beðið um að mæta í stuttermabol innst klæða til að auðvelda bólusetningu.
Heilbrigðisstofnanir utan höfuðborgarsvæðisins munu annast bólusetningar fyrir sína skjólstæðinga.
Þegar bólusetningarátakinu í Laugardalshöll er lokið stendur til að bjóða upp á bólusetningar við Covid-19 og inflúensu á heilsugæslustöðvum.
Þau sem hafa hug á að nýta sér það þurfa að hafa samband við sína stöð til að fá nánari upplýsingar um fyrirkomulag bólusetninga.
Upplýsingar um aukaverkanir vegna Covid-19 bólusetningar er að finna á vefnum covid.is.