Heilsugæslustöðvar bjóða nú upp á bólusetningar við bæði inflúensu og Covid-19 auk hefðbundinna ferðamannabólusetninga.
Fólk 60 ára og eldri og yngra fólk með undirliggjandi sjúkdóma er hvatt til að þiggja bólusetningu við bæði inflúensu og Covid-19.
Bóka þarf tíma í bólusetningu í gegnum mínar síður á Heilsuveru eða í gegnum síma hjá hverri heilsugæslustöð. Misjafnt er milli stöðva á hvaða tímum boðið er upp á bólusetningar og er hægt að finna nánari upplýsingar á vefsíðu hverrar heilsugæslustöðvar eða við tímabókun.
Hægt er að velja um að fá eftirfarandi bólusetningar:
- Grunnbólusetningu við Covid-19.
- Örvunarskammt af bóluefni gegn Covid-19.
- Bóluefni við inflúensu.
- Örvunarskammt gegn Covid-19 og bóluefni við inflúensu á sama tíma.
Bólusetningar fyrir ferðamenn
Heilsugæslustöðvar bjóða einnig upp á bólusetningar fyrir fólk sem hyggur á ferðalög erlendis.
Sóttvarnalæknir mælir sérstaklega með því að fólk 24 ára og eldra sem ekki hefur fengið bólusetningu gegn barnaveiki og mænusótt á síðustu 10 árum fái slíka bólusetningu fyrir öll ferðalög erlendis. Nánar er fjallað um viðhald bólusetninga á Heilsuveru.
Upplýsingamiðstöð heilsugæslunnar veitir ráðgjöf um nauðsynlegar bólusetningar tengt ferðalögum og útbýr bólusetningaráætlun í gegnum netspjall á vefnum Heilsuveru.