Þetta er niðurstaða úttektar Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands sem unnin var fyrir upplýsingatæknifyrirtækið Origo. Á meðan faraldrinum stóð þróaði Origo tæknilausnir fyrir bólusetningar, sýnatökur, rafræn vottorð og skimun á landamærunum í samvinnu við Embætti landlæknis og heilsugæsluna.
Með notkun Heilsuveru var einfaldara fyrir einstaklinga að panta tíma í skimun og tímasparnaður fólginn í því fyrir bæði einstaklinga og heilbrigðisstarfsfólk. Mesti ávinningurinn af notkun lausnanna var þó fólgin í því að niðurstöður um smit bárust fyrr og þeir sem ekki reyndust smitaður gátu sloppið fyrr úr sóttkví.
Vinna við kerfið hófst þegar ákveðið var að opna landamærin og skima alla ferðamenn. Þá þurfti að hanna tölvukerfi sem gæti haldið utan um það ferli. Kerfið var svo útfært til að taka skimanir innanlands.
„Þarna kom vel í ljós hvernig teymisvinna þar sem heilbrigðisstarfsfólk vinnur með forriturum, verkfræðingum og öðrum stéttum getur skilað frábærum árangri,“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
„Við lærðum mjög mikið af þessu ferli og höfum nýtt okkur þessa reynslu til að þróa áfram tölvukerfi og tæknilausnir til að stytta boðleiðirnar og auðvelda bæði okkar starfsfólki og þeim sem nýta þjónustu okkar lífið,“ segir Ragnheiður Ósk.
Ábatinn líklega enn meiri
Hagfræðistofnun telur að alls hafi 670 milljónir króna sparast á tveggja ára tímabili vegna hagræðis af beinni skráningu í sýnatöku vegna Covid-19 í Heilsuveru. Mesti ábatinn af tölvukerfinu sem sett var upp er þó að fólk fékk niðurstöður fyrr en ella og gat því snúið fyrr til vinnu. Ábati samfélagsins af því er talinn vera um 8,7 milljarðar króna. Kostnaðurinn við kerfið var um 300 milljónir svo í heildina var ábatinn af kerfinu um 9,1 milljarður króna.
Í skýrslu Hagfræðistofnunar kemur fram að óvissa sé um ýmsar forsendur en líkur á því að ábatinn af kerfinu sé vanmetinn. Þar séu til dæmis ekki metin til fjár atriði eins og landamæraskimun, bólusetningar, vottorð um smit eða mótefni og fleira.