Gervigreindin komin til starfa hjá Upplýsingamiðstöð HH

Mynd af frétt Gervigreindin komin til starfa hjá Upplýsingamiðstöð HH
30.06.2023
Tilraunaverkefni um notkun gervigreindar hjá Upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hefur gefið afar góða raun og hefur stofnunin samið við íslenska heilsutæknifyrirtækið Dicino um áframhaldandi þróun verkfærisins.

Gervigreindin nýtist í netspjalli Heilsuveru þar sem tekið er sjálfvirkt innritunarviðtal við sjúklinginn áður en sérfræðingar Upplýsingamiðstöðvarinnar taka við spjallinu. Sjúklingurinn er spurður út í sjúkdómseinkenni og áhættuþætti og þekkir kerfið yfir 1.200 læknisfræðileg málefni og kann að spyrja yfir 5.500 spurninga á bæði íslensku og ensku. Einnig er texti læknaskýrslu nú ritaður sjálfvirkt á íslensku óháð tungumáli sjúklings.

„Starfsfólkið okkar þarf nú ekki lengur að spyrja sömu spurninganna aftur og aftur heldur getur það einbeitt sér að úrlausn og frekari ráðgjöf mun hraðar en áður. Um  62% gesta Heilsuveru velja netspjallið og því var tilvalið að byrja þar.“ segir Ragnheiður Ósk Erlendsdóttir, framkvæmdastjóri hjúkrunar hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

Reynslan af þessari þjónustu sýnir að hægt að leysa úr sífellt stærri hluta erinda með fjarlausnum sem er betri þjónusta fyrir einstaklinginn og dregur jafnframt úr álagi á heilbrigðiskerfið.

Smellpassaði við þarfir Heilsugæslunnar

Samningur um áframhaldandi samstarf Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og Dicino var undirritaður í gær. Hann færir Heilsugæsluna nær markmiðum um stóreflda þjónustu og ráðgjöf um heilsutengd málefni í símanúmerinu 1700 og á netspjalli Heilsuveru.

Samstarf Heilsugæslunnar og Dicino hófst síðastliðið vor í lausnamóti heilbrigðiskerfisins, sem skipulagt var af Heilsutækniklasanum. Að loknum prófunarfasa og samráðsvinnu var netspjall Heilsuveru tengt Dicino og fer hluti samtals við sérfræðing nú fram með sjálfvirkum hætti. Afar jákvæðar niðurstöður voru kynntar á nýsköpunarviku og í framhaldinu var ákveðið að ganga til samninga um áframhaldandi notkun á kerfinu.

„Við vorum komin með annan fótinn til Spánar en rann auðvitað blóðið til skyldunnar þegar kallið kom enda smellpassaði lausnin okkar við þarfir Heilsugæslunnar,“ segir Arnar Freyr Reynisson, framkvæmdastjóri Dicino. Kerfið var áður einungis í boði fyrir spænsku- og enskumælandi. 

„Verkefnið var ansi umfangsmikið enda þurfti að bæta íslensku aftur inn og tengja við spjallmenni Heilsuveru á afar skömmum tíma. Það er afar ánægjulegt að geta lagt íslenska heilbrigðiskerfinu lið,“ segir Arnar Freyr. „Fyrir nokkrum árum sáum við fyrir okkur að fjöltyngd kerfi með áherslu á sjálfvirkni myndu létta álagið í fjölmenningarlegum heimi þar sem fyrirséður er verulegur skortur á heilbrigðisstarfsfólki. Það er auðvitað afar ánægjulegt að við getum byrjað hér heima.“

Ábyrg, ritstýrð gervigreind

„Hjá Dicino höfum við farið afar varlega og forritað gervigreindarvirkni sjálf þannig að við séum einungis að auka skilvirkni en ekki áhættu með tækninni. Á hverjum degi notum við öll einhverja gerð gervigreindar, hvort sem það er sjálfvirkni á lagavali streymisveitna eða þegar við flökkum um heima samfélagsmiðlanna sem nota tölfræði til að birta færslur og markaðsefni,“ segir Steingrímur Árnason tæknistjóri Dicino.

„Á endanum snýst þetta um að nýta tæknina með ábyrgum hætti í þágu almannaheilla. Það er engin sjálfvirk ákvarðanataka varðandi meðferðina sjálfa heldur erum við hreinlega að spara eitt helsta verðmætið, sem er tími. Í þessu tilviki tími sérhæfðs heilbrigðisstarfsfólks sem skortur er á um allan heim,“ segir Steingrímur. 

„Það hefur verið frábært að fá að vera með þeim fyrstu til að starfa með beinum hætti með hinu opinbera og framlínu heilbrigðiskerfisins. Við höfum nú þegar fengið ómetanlega endurgjöf sem gagnast við framþróun lausnarinnar og það má segja að þó lausnin sé afar viðamikil þá séum við rétt að byrja.“