Samhæfingamiðstöð krabbameinsskimana, sem hefur umsjón með skimun fyrir krabbameini um allt land, hefur unnið að því undanfarið að auka þátttöku í skimunum við brjóstakrabbameini og leghálskrabbameini. Einn þáttur í því starfi er að tryggja að sem flestir sem fá boð í skimun sjái boðsbréfið.
Einkennalausum konum á aldrinum 40 til 69 ára er boðin skimun fyrir brjóstakrabbameini á tveggja ára fresti og konum á aldrinum 70 til 74 ára á þriggja ára fresti. Konum á aldrinum 23 til 29 ára er boðin skimun fyrir leghálskrabbameini á þriggja ára fresti en konum á aldrinum 30 til 64 ára á fimm ára fresti.
Boðsbréfin í skimun hafa hingað til verið send í pósti á heimilisfang viðkomandi auk þess sem þau voru send í pósthólf á vefnum island.is. Hér eftir verða bréfin einnig send á þær konur sem geta mætt í skimun á Mínar síður á vefnum heilsuvera.is.
Niðurstöður úr skimunum verða hér eftir sendar inn á Mínar síður Heilsuveru, auk þess sem þær munu áfram verða sendar í pósthólfið á island.is.
Konur hvattar til að koma í skimun
„Það er virkilega ánægjulegt að geta hér eftir átt samskipti við okkar skjólstæðinga á Mínum síðum á Heilsuveru, enda er þetta vefur sem almenningur þekkir vel og notar mikið bæði til að fá fræðslu um heilsutengd málefni og til að eiga samskipti við heilbrigðisstarfsfólk,“ segir Ágúst Ingi Ágústsson, yfirlæknir á Samhæfingarstöð krabbameinsskimana.
Konur sem hafa fengið boðsbréf í krabbameinsskimun eru hvattar til að panta tíma í skimun. Leghálsskimanir fara fram á heilsugæslustöðvum en skimanir fyrir brjóstakrabbameini á Brjóstamiðstöð Landspítalans, auk þess sem skimað er reglulega á landsbyggðinni.
Hægt er að fá meiri upplýsingar um krabbameinsskimanir á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Samhæfingarstöð krabbameinsskimana veitir nánari upplýsingar í síma 513-6700 milli kl. 8:30 og 12:00 alla virka daga. Einnig er hægt að senda tölvupóst á krabbameinsskimun@heilsugaeslan.is.