Fjölmörg samtök launafólks, kvenna og hinsegin fólks hafa boðað til kvennaverkfalls þriðjudaginn 24. október. Konur og kvár sem það geta eru hvött til að leggja niður launuð og ólaunuð störf. Starfsfólk Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins er um 1.000 talsins, þar af um 84 prósent konur. Reikna má með að verulegur hluti starfsfólks heilsugæslunnar mun leggja niður störf þennan dag.
Komið verður til móts við starfsfólk vegna boðaðs kvennaverkfalls eins og hægt er, en Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun tryggja að nauðsynlegri þjónustu verði haldið gangandi svo öryggi fólks eða heilsu sé ekki stefnt í hættu. Heilsugæslustöðvar verða opnar en munu eingöngu sinna bráðum erindum og smáslysum auk þess sem nauðsynleg lyf verða endurnýjuð. Verkefnum sem ekki teljast bráð verður ekki sinnt þennan dag. Starfsemi Heimahjúkrunar verður einnig skert og mun starfsfólk einungis veita lágmarksþjónustu.
Ekki dregið af launum starfsfólks
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins mun leita leiða til að konur og kvár sem ekki geta tekið þátt í verkfallinu geti með öðrum hætti sýnt samstöðu með kröfum dagsins. Í samræmi við tilmæli frá kjara- og mannauðssýslunni mun HH ekki draga frá launum þeirra sem taka þátt í kvennaverkfallinu.