Bangsaspítali og léttar veitingar á afmæli Hvamms

Mynd af frétt Bangsaspítali og léttar veitingar á afmæli Hvamms
29.05.2024

Heilsugæslan Hvammi fagnar 25 ára starfsafmæli um þessar mundir. Af því tilefni verður boðið upp á opið hús föstudaginn 31. maí milli klukkan 16 og 18. Þar getur yngsta kynslóðin komið með slasaða eða veika bangsa á bangsaspítala. Einnig verður boðið upp á blóðþrýstingsmælingar, almenna kynningu og léttar veitingar.

Starfsfólk Heilsugæslunnar Hvammi hefur í nógu að snúast flesta daga. Á hverjum degi koma að meðaltali um 105 einstaklingar sem þurfa á þjónustu að halda. Þá eru 65 símtöl afgreidd og um 95 samskipti í gegnum Mínar síður á Heilsuveru.

Í Hvammi er boðið er upp á hefðbundna heilsugæsluþjónusta ásamt sérhæfðari þjónustu eins og lífsstílsmóttöku og ráðgjöf lyfjafræðings og sjúkraþjálfara.  Heilsuverndin styður við fjölskyldur í mæðravernd, ung- og smábarnavernd og skólaheilsugæslu í Smáraskóla og Álfhólsskóla. 

Móttaka fyrir bráð erindi er opin milli klukkan 8 og 14 alla virka daga og síðdegisvakt milli klukkan 16 og 17 mánudaga til fimmtudags. 

Nokkuð margir nemar á heilbrigðissviðum starfa á Heilsugæslunni Hvammi í einhvern tíma, sem skapar skemmtilegt andrúmsloft og tilbreytingu fyrir starfsfólk og skjólstæðinga. Móttökuritarar, heimilislæknar ásamt hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum, sjúkraþjálfara og lyfjafræðingi bjóða alla velkomna. 

Á Heilsugæslunni Hvammi er mikil áhersla á að veita samfellda þjónustu með hag einstaklingsins og fjölskyldunnar í huga. Fagleg afstaða er tekin til allra erinda og annað hvort leyst úr þeim á staðnum eða ráðlagt um önnur úrræði.

Aldarfjórðungs saga

Heilsugæslan Hvammi opnaði dyrnar fyrir skjólstæðingum árið 1999 og hefur því verið starfandi í aldarfjórðung. Það gekk ekki átakalaust að koma stöðinni á koppinn. 

Fyrsta heilsugæslan í Kópavogi opnaði formlega 1980 í Fannborg 7 til 9. Kópavogur óx hratt og árið 1990 var ljóst að byggja þyrfti aðra heilsugæslustöð í bænum. Eftir talsverða tregðu í kerfinu var loks ákveðið að byggja nýja heilsugæslustöð sem var valinn staður í móunum beint á móti Gullsmára. Uppbygging gekk rólega og var húsið nær fullbúið 1997 en opnaði ekki formlega fyrr en 1999. 

Mikil uppbygging hefur verið í hverfinu í kringum Hvamm á undanförnum árum og enn meiri uppbygging framundan. Starfsfólkið hlakkar til að taka á móti nýjum skjólstæðingum og halda jafnframt áfram að veita þeim sem þegar eru skráðir á stöðina þá frábæru þjónustu sem þeir eiga að venjast.