Ekki bólusett við Covid-19 fyrr en í haust

Mynd af frétt Ekki bólusett við Covid-19 fyrr en í haust
19.07.2024

Talsvert er um Covid-19 smit í samfélaginu um þessar mundir. Fólki í áhættuhópum var boðið upp á bólusetningu síðastliðið haust og stendur til að bjóða upp á bólusetningu þegar nýtt bóluefni kemur til landsins í haust.

Fjallað er um stöðu Covid-19 smita í frétt frá embætti landlæknis. Landspítalinn hefur gripið til aðgerða vegna fjölda smita en almennt eru veikindi fólks ekki alvarleg.

Mælt var með bólusetningum gegn Covid-19 fyrir eldra fólk og fólk í áhættuhópum síðasta haust. Áformað er a bjóða upp á bólusetningu í haust þegar uppfært bóluefni berst. Tímasetning og fyrirkomulag þeirra bólusetninga verður auglýst þegar nær dregur.

Covid-19 smitast með úða og dropum frá öndunarfærum. Þau afbrigði sem eru aðallega í dreifingu hérlendis nú eru þau sömu og eru að greinast í nágrannalöndunum, að því er fram kemur í frétt frá embætti landlæknis.

Ekki alvarlegri veikindi en síðasta vetur


„Einkenni Covid-19 geta verið allt frá vægum kvefeinkennum til hás hita, slappleika og flensulíkra einkenna og einkenni eru mismikil milli einstaklinga. Það eru einna helst eldri einstaklingar og einstaklingar með undirliggjandi áhættuþætti sem veikjast alvarlega vegna Covid-19 og þurfa innlögn á spítala. Engar vísbendingar um að veikindin nú séu alvarlegri en síðastliðinn vetur,“ segir á vef embættis landlæknis.

Hægt er að lesa meira um einkenni Covid-19, smitleiðir og fleira á fræðsluvef Heilsuveru.

Gott er að hafa í huga eftirfarandi atriði til að draga úr líkum á smiti:

  • Halda sig til hlés í veikindum.
  • Fólk með einkenni forðist fjölmenni, umgengni við ung börn, eldra fólk og aðra viðkvæma.
  • Hylja nef og munn við hósta og hnerra.
  • Þvo hendur.
  • Nota grímu ef ástæða til, til dæmis á heilbrigðisstofnunum og biðstofum.
  • Lofta út.
  • Þrífa snertifleti reglulega.