Félagsráðgjöfum fjölgar á heilsugæslustöðvum

Mynd af frétt Félagsráðgjöfum fjölgar á heilsugæslustöðvum
29.08.2024
Félagsráðgjöfum hefur fjölgað hratt hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins undanfarið og eru nú alls sex heilsugæslustöðvar með félagsráðgjafa að störfum. Viðbúið er að félagsráðgjafi verði starfandi á mun fleiri heilsugæslustöðvum þegar fram líða stundir.

Aukin áhersla hefur verið á þverfaglega teymisvinnu á heilsugæslustöðvum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og er ráðning félagsráðgjafa liður í þeirri framþróun. Félagsráðgjafi kemur að málum eftir beiðni frá öðrum fagstéttum innan stöðvanna því ekki almennar tímapantanir hjá félagsráðgjöfum.

Starf félagsráðgjafa á heilsugæslustöðvunum felst meðal annars í því að aðstoða einstaklinga, pör eða fjölskyldur sem standa frammi fyrir félagslegum, andlegum eða fjölskylduvandamálum sem hafa áhrif á heilsu þeirra.

Félagsráðgjafar eru hluti af þverfaglegu teymi innan sinnar heilsugæslustöðvar og geta veitt faglega ráðgjöf varðandi félagsleg réttindi í tengslum við heilsubrest ásamt stuðning í erfiðum aðstæðum. Oft geta þeir leiðbeint einstaklingum og fagfólki til að fá rétta þjónustu á réttum stað á réttum tíma. Sálfélagslega hlutverk félagsráðgjafa innan heilsugæslunnar felst í að styðja einstaklinga, pör eða fjölskyldur í erfiðum aðstæðum með stuðningsviðtölum og fjölskylduráðgjöf.

Félagsráðgjafar á heilsugæslustöðvum vinna náið með læknum, hjúkrunarfræðingum, sálfræðingum og öðru fagfólki með það að markmiði að tryggja heildræna umönnun og stuðning fyrir skjólstæðinga stöðvanna.

Í dag eru félagsráðgjafar starfandi á sex heilsugæslustöðvum hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðinu. Það eru Heilsugæslan Efra-Breiðholti, Heilsugæslan Efstaleiti, Heilsugæslan Glæsibæ, Heilsugæslan Grafarvogi, Heilsugæslan Hamraborg og Heilsugæslan Miðbæ.