Tæpur þriðjungur sjúklinga með meðferðarþrátt þunglyndi sem prófuðu nýja segulörvunarmeðferð hjá Heilaörvunarmiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins losnuðu við þunglyndiseinkenni sín með nokkurra vikna meðferð. Þetta sýna niðurstöður nýrrar rannsóknar sem birtar voru í nýjasta eintaki Læknablaðsins.
Rannsóknin tók til 104 sjúklinga á árunum 2022 og 2023. Allir höfðu reynt lyfjameðferðir og í sumum tilvikum aðrar aðferðir til að takast á við þunglyndið án þess að fá bata. Niðurstöður hennar sýndu að tæplega 32 prósent náðu fullum bata. Mun hærra hlutfall hafði ávinning af meðferðinni en náði ekki fullum bata.
Heilaörvunarmiðstöðin var sett á laggirnar árið 2021 og tók við fyrstu sjúklingunum í byrjun árs 2022. Miðstöðin veitir meðferð sem felst í segulörvun á heila með sérhæfðum lækningartækjum og sérþjálfuðu starfsfólki. Skjólstæðingar koma daglega í fjórar til sex vikur í senn í stutta meðferð sem krefst ekki svæfingar, deyfingar né skurðaðgerðar. Meðferðin beinist að afmörkuðu svæði heilans og hefur ekki bein áhrif á önnur líffæri.
Höfðu ekki fengið bata með lyfjameðferð
„Þessi rannsókn staðfestir þann góða árangur sem við höfum séð hjá okkar skjólstæðingum og er í fullu samræmi við erlendar rannsóknir á þessari meðferð. Það er sérstaklega ánægjulegt að sjá svo góðan árangur hjá þessum hópi sem hefur ekki náð bata með oft ítrekaðri lyfjameðferð og stundum öðrum aðferðum,“ segir Jón Gauti Jónsson, teymisstjóri Heilaörvunarmiðstöðvar Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
Talið er að á bilinu fimm til tíu prósent landsmanna glími við þunglyndi. Fram að þessu hafa um tveir þriðju náð bata með hjálp lyfja og samtalsmeðferða. Þriðjungur hefur því ekki náð árangri og þróað með sér það sem kallað er meðferðarþrátt þunglyndi.
„Það sem gefur enn frekar tilefni til bjartsýni með segulörvunarmeðferðina er að brottfall sjúklinga er mjög lítið og aukaverkanir hafa reynst afar sjaldgæfar og vægar. Aðeins rúmlega 12 prósent sjúklinga hættu meðferð sem segir okkur að flestir þola meðferðina vel og sjá árangur af henni,“ segir Jón Gauti.
Stór áhættuþáttur þegar kemur að sjálfsvígum
„Þunglyndi leggst ekki aðeins þungt á einstaklinginn heldur hefur það áhrif á allt og alla í hans umhverfi. Þunglyndi er einnig stór áhættuþáttur þegar kemur að sjálfsvígum. Fram til þessa hefur verið fátt um úrræði fyrir þá sem ekki hafa náð árangri með lyfja- eða samtalsmeðferð. Þessi rannsókn staðfestir að segulörvunarmeðferð gefur raunhæfa von um árangur,“ segir Jón Gauti.
Erlendar rannsóknir benda til þess að árangur af segulörvunarmeðferð sé meiri eftir því sem alvarleiki þunglyndisins er minni. Það auk hraðrar þróunar í þessum geira læknisfræðinnar hefur gefið von um að árangurinn gæti jafnvel orðið enn betri ef gripið er fyrr inn í, áður en þunglyndið er orðið langvinnt eða alvarlegt. Fyrst þarf þó að fjölga meðferðartækjum og koma þeim nær skjólstæðingum. Framtíðarsýnin er sú að meðferð af þessu tagi verði aðgengilegt í öllum landshlutum.
Heilaörvunarmiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins tekur við sjúklingum frá landinu öllu en starfsemin fer fram í nýju húsnæði miðstöðvarinnar í Skógahlíð 18 í Reykjavík. Til að komast í meðferð þarf tilvísun í meðferðina frá heimilislækni eða geðlækni.
Rannsóknin var unnin af Elín Maríu Árnadóttur læknanema í samstarfi við læknadeild Háskóla Íslands og voru niðurstöðurnar birtar í nýjasta eintaki Læknablaðsins. Rannsóknin náði til allra einstaklinga sem höfðu hafið og lokið eða hætt segulörvunarmeðferð frá því fyrsta meðferðin var veitt 26. janúar 2022 til og með 31. desember 2023.