Samningi um aðgengi að sjúkraskrá rift

Mynd af frétt Samningi um aðgengi að sjúkraskrá rift
03.10.2024
Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins (HH) hefur lokað fyrir aðgengi heilbrigðisstarfsfólks hjá Samgöngustofu að sjúkraskrá. Það var gert samkvæmt fyrirmælum embættis landlæknis sem komu í kjölfar úrskurðar Persónuverndar í máli tengdu Samgöngustofu.

HH gerði samning um aðgengi heilbrigðisstarfsfólks hjá Samgöngustofu að sjúkraskrá árið 2020. Embætti landlæknis hefur nú komist að þeirri niðurstöðu að samningurinn hafi ekki verið í samræmi við ákvæði laga um sjúkraskrá. Lokað var fyrir aðgang Samgöngustofu um leið og erindi embættis landlæknis barst þann 25. september og verður samningur við stofnunina felldur úr gildi í kjölfarið. 

Eingöngu heilbrigðisstarfsfólk með leyfi frá embætti landlæknis hafði aðgang að sjúkraskrá og allar uppflettingar og færslur voru skráðar, eins og alltaf á við um notkun sjúkraskrár. Persónuvernd fór yfir málið eftir að stofnuninni barst kvörtun vegna uppflettingar starfsmanns Samgöngustofu. Í kjölfarið gerði embætti landlæknis athugasemdir við HH um samninginn við Samgöngustofu.

„Það er ljóst að ekki var staðið rétt að gerð samnings við Samgöngustofu og við vinnslu annarra sambærilegra samninga hjá stofnuninni. Við tökum málið alvarlega og munum fara yfir alla samninga sem gerðir hafa verið um aðgengi að sjúkraskrá og tryggja að þeir séu í fullu samræmi við lög,“ segir Sigríður Dóra Magnúsdóttir, forstjóri HH.