Fræðsla um svefn barna ætluð foreldrum grunnskólabarna er nú aðgengileg öllum á vef Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Áætlað er að um 20 til 30 prósent barna glími við svefnvanda.
Fræðslan er á myndbandi sem opið er öllum og tekur um eina klukkustund að horfa. Þá eru glærur sem notaðar eru í fræðslunni aðgengilegar. Fræðsluna má finna hér.
Sérstök áhersla er á börn á aldrinum 6 til 12 ára en í fræðslunni er einnig rætt um skjánotkun, koffínneyslu og dægursveiflur unglinga á grunnskólaaldri.
Í fræðslunni er einnig fjallað um lífseigar mýtur um svefn:
- Er hægt að bæta upp fyrir lítinn svefn með því að sofa út seinna?
- Er gott að vaka alla nóttina til að undirbúa sig fyrir próf?
- Er nóg að sofa í 5 til 6 tíma á nóttu?
Margir foreldrar og aðrir umsjónaraðilar þekkja svefnvanda barna og glíma mörg af þeim börnum sem vísað er á þjónustu Geðheilsumiðstöðvar barna hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við einhverskonar svefnvanda.
Svefnvandi hefur víðtæk áhrif
Áætlað er að 20 til 30 prósent barna glími við einhvern svefnvanda og er hlutfallið enn hærra meðal barna með ADHD, einhverfu eða kvíða. Svefnvandi hefur víðtæk áhrif, meðal annars á athygli, líðan og tilfinningastjórn barnsins, og getur verið langvarandi og íþyngjandi fyrir barn og fjölskyldu þess.
Verkefnið fékk Lýðheilsustyrk árið 2023.