Heilsugæslan Efstaleiti fagnar 25 ára afmæli

Mynd af frétt Heilsugæslan Efstaleiti fagnar 25 ára afmæli
24.10.2024
Starfsfólk Heilsugæslunnar Efstaleiti fagnar þessa dagana 25 ára afmæli stöðvarinnar. Stöðin opnaði árið 1999 í húsnæði sem var sérhannað fyrir rekstur heilsugæslustöðvar.

Vel hefur gengið að manna stöðina undanfarið og þar starfa um 30 starfsmenn. „Í dag starfar öflugur hópur hjá okkur í Efstaleitinu og starfsemin gengur mjög vel,“ segir Elínborg Bárðardóttir, heimilislæknir og svæðisstjóri stöðvarinnar. 

„Við höfum verið í átaki við að skrá okkar skjólstæðinga hjá heimilislæknum sem eru komnir til starfa á stöðinni. Við leggjum áherslu á að fólk hafi sinn heimilislækni ef því verður við komið enda er það alltaf best til að hafa sem besta samfellu í þjónustunni,“ segir Elínborg.

Heilsugæslan Efstaleiti er eins og fleiri heilsugæslustöðvar í samstarfi við Upplýsingamiðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins um forflokkun bráðra erinda. Fólk sem þarf að komast fljótt til læknis hefur samband í síma 1700 eða á netspjalli Heilsuveru. Þar fær það góð ráð frá hjúkrunarfræðingi sem metur erindið og getur bókað tíma.

Tímabókanir í gegnum skilaboð á Heilsuveru

Fólk sem er með erindi sem ekki eru bráð getur haft samband við Heilsugæsluna Efstaleiti í gegnum skilaboð á mínum síðum Heilsuveru. Þar er hægt að fara undir skilaboð í ný skilaboð og velja eftirfylgd meðferðar og segja  stuttlega frá erindinu. Hjúkrunarfræðingar á heilsugæslustöðinni fara yfir öll erindi og bóka tíma hjá lækni eða öðru viðeigandi fagfólki. Einnig er hægt að panta tíma með því að hringja í móttökuna og fá símtal við hjúkrunarfræðing.

„Þetta fyrirkomulag virðist vera að virka vel. Við leggjum áherslu á að erindi komist í réttan farveg. Þegar fólk þarf að komast fljótt að reynum við að verða við því, en stundum mega erindi bíða aðeins og þá getum við bókað tíma aðeins lengra fram í tímann,“ segir Elínborg.