Ekki er til bóluefni sem má nota á börn undir sex mánaða aldri en bólusetning móður á meðgöngu skilar mótefnum til barns sem talin eru veita vernd í að minnsta kosti sex mánuði, eins og lesa má um á fræðsluvef Heilsuveru.
Bólusetningar við inflúensu eru hafnar á öllum heilsugæslustöðvum. Bókanir fyrir tíma í bólusetningu eru í gegnum Mínar síður á vefnum Heilsuveru, en einnig er hægt að bóka með símtali við næstu heilsugæslustöð.
Sex sinnum líklegri til að enda á spítala
Börn undir fjögurra ára aldri sem smitast af inflúensu eru um sex sinnum líklegri til að þurfa að fara á spítala en fólk almennt og því til mikils að vinna að börn séu bólusett. Bóluefni veitir ekki 100% vörn og börn geta því fengið inflúensu þrátt fyrir bólusetningu.
Upplýsingar um áhættuhópa og nánari upplýsingar um bóluefni við inflúensu má finna á vef embættis landlæknis.